Alisson Becker

Fæðingardagur:
02. október 1992
Fæðingarstaður:
Novo Hamburgo
Fyrri félög:
Internacional, Roma
Kaupverð:
£ 62000000
Byrjaði / keyptur:
19. júlí 2018
Upplýsingar á LFChistory.net
Skoða

Brasilíski markvörðurinn Alisson Becker var keyptur sumarið 2018 frá ítalska félaginu AS Roma.

Alisson er fæddur í borginni Novo Hamburgo en borgin var stofnuð á 19. öld af þýskum innflytjendum og nafn borgarinnar tengist auðvitað þýsku borginni Hamburg.  Alisson var átta ára gamall þegar hann hóf knattspyrnuferil sinn hjá Internacional og fylgdi þar með í fótspor eldri bróður síns, Muriel Gustavo Becker.  Þeir bræður vildu báðir verða markverðir og börðust um sæti í byrjunarliði félagsins eftir að hafa komið upp úr unglingastarfinu.

Alisson náði að tryggja sér byrjunarliðssæti á kostnað bróður síns í febrúar árið 2013 þegar hann spilaði sinn fyrsta leik fyrir Internacional, nánar tiltekið í leik gegn Cruzeiro sem endaði 1-1.  Um sumarið var Alisson svo markvörður í U-21 árs liði Brasilíu sem vann keppni að nafni Toulon Tournament.  Hélt hann hreinu í úrslitaleiknum gegn Kólombíu sem vannst 1-0.

Í ágúst sama ár byrjaði hann sinn fyrsta leik fyrir Internacional í deildinni en ekki svo löngu síðar fékk félagið markvörðinn Dida til liðs við sig frá Gremio og þá var ljóst að samkeppnin um markvarðastöðuna væri orðin ansi hörð.  Dida var byrjunarliðsmaður að mestu eftir komu sína til félagsins en eftir að hann var rekinn af velli í 5-0 tapi gegn Chapocoense í október 2013 ákvað þjálfari Internacional að gera Alisson að sínum fyrsta kosti.  Hann hélt sæti sínu í liðinu og liðið varð meistari árin 2014 og 2015 og komst í undanúrslit í Copa Libertadores árið 2015.

Í september árið 2015 var Alisson kallaður inn í brasilíska landsliðshópinn en spilaði ekki sinn fyrsta landsleik fyrr en í maí 2016 þegar 2-0 sigur vannst á Panama.  Um sumarið var hann svo orðinn aðalmarkvörður Brasilíu í Copa America sem haldin var um sumarið.  Í júlí komu var hann svo keyptur til Roma á Ítalíu en sitt fyrsta tímabil þar spilaði hann aðeins 14 leiki, alla í bikarkeppnum þar sem Wojciech Szczesny var aðalmarkvörður liðsins á láni frá Arsenal.

Szczesny hélt á braut sumarið eftir og þá var ljóst að Alisson var fyrsti kostur.  Hann spilaði frábærlega með Roma sem komust alla leið í undanúrslit Meistaradeildarinnar gegn Liverpool sælla minninga (fyrir okkur Liverpool menn).  Um sumarið var hann svo auðvitað aðalmarkvörður Brasilíu á HM en þeir féllu úr leik í 8-liða úrslitum fyrir Belgíu.

Eftir HM var ekki mikið talað um brottför Alisson frá Roma en þegar Liverpool sáu að tækifæri var til að fá hann til liðs við sig var ekki aftur snúið.  Félagið festi kaup á honum og hann varð dýrasti markvörður sögunnar þegar félagsskiptin gengu í gegn.  Það met stóð þó ekki lengi, sem betur fer, því undir lok félagaskiptagluggans keypti Chelsea spænskan markvörð á metfé.

Tölfræðin fyrir Alisson Becker

Tímabil Deild Bikar Deildarbikar Evrópa Annað Alls
2018/2019 38 - 0 0 - 0 0 - 0 13 - 0 0 - 0 51 - 0
2019/2020 29 - 0 0 - 0 0 - 0 5 - 0 3 - 0 37 - 0
2020/2021 33 - 1 1 - 0 0 - 0 7 - 0 1 - 0 42 - 1
2021/2022 36 - 0 4 - 0 1 - 0 13 - 0 0 - 0 54 - 0
2022/2023 37 - 0 2 - 0 0 - 0 8 - 0 0 - 0 47 - 0
2023/2024 28 - 0 2 - 0 0 - 0 2 - 0 0 - 0 32 - 0
Samtals 201 - 1 9 - 0 1 - 0 48 - 0 4 - 0 263 - 1

Fréttir, greinar og annað um Alisson Becker

Fréttir

Í nærmynd

Skoða önnur tímabil