Lög Liverpoolklúbbsins á Íslandi.

1. kafli Heiti félagsins og hlutverk

1. gr.  Heiti félagsins er Liverpoolklúbburinn á Íslandi.

Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Hlutverk félagsins er að stuðla að auknum stuðningi við Liverpool FC, miðla upplýsingum um félagið og vera í forsvari fyrir stuðningsmenn klúbbsins hér á landi. Félagið er jafnframt fulltrúi Íslands samtökum stuðningsmannaklúbba Liverpool FC.

3. gr. Tilgangi sínum hyggst félagið ná með:

a) útgáfu fréttabréfs / tímarits ( Rauði Herinn )
b) rekstur heimasíðu á internetinu - www.liverpool.is
c) standa fyrir hópferðum á leiki Liverpool FC
d) standa fyrir uppákomum í tengslum við leiki Liverpool FC
e) öðru sem aukið getur samkennd og stemningu kringum Liverpool FC hér á landi

2. kafli
Félagsmenn - félagsgjald

4. gr. Félagsmenn geta allir orðið sem skrá sig í félagið og greiða árgjald.

5. gr. Árgjaldið skal ákveðið á aðalfundi. Stjórn er heimilt að bjóða upp á mismunandi tegundir félagsaðildar.

6. gr. Félagsaðild gildir fyrir tímabilið 1. ágúst - 31. júlí.

7. gr. Heimilt er að víkja félögum úr klúbbnum ef þeir í ferðum eða í nafni félagsins brjóta af sér eða koma ósæmilega fram að mati meirihluta stjórnar.

3. kafli
Aðalfundur

8. gr. Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfundur skal haldin í maí ár hvert og skal hann auglýstur í Rauða Hernum og / eða á www.liverpool.is með minnst 30 daga fyrirvara. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.

9.gr. Stjórnin getur kallað saman aukaaðalfund telji hún brýna þörf á. Einnig ber að kalla saman aukaaðalfund óski a.m.k. 10 % félagsmanna þess. Allir boðunar- og tilkynningarfrestir mega vera helmingi styttri fyrir auka aðalfund heldur en aðalfund. Á aukaaðalfundi má ekki gera lagabreytingar og aðeins má kjósa stjórn til bráðabirgða sem situr fram að næsta aðalfundi.

10. gr. Atkvæðis- og tillögurétt hafa aðeins skuldlausir félagsmenn. Umboð skuli berast stjórn eigi síðar en viku fyrir aðalfund, vottuð af tveimur einstaklingum. Félagsmenn geta ekki farið með umboð fyrir fleiri en tvo félagsmenn auk hans sjálfs.

11. gr. Dagskrá aðalfundar skal vera:

- Kosning fundarstjóra og fundarritara.
- Stjórn leggur fram skýrslu fyrir yfirstandandi starfsár
- Stjórn leggur fram endurskoðaða reikninga.
- Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga.
- Lagabreytingar, löglega fram bornar.
- Kosning formanns til tveggja ára.
- Kosning þriggja stjórnarmanna til tveggja ára.
- Kosning tveggja varamanna til eins árs.
- Kosning endurskoðenda.
- Ákvörðun um árgjald.
- Önnur mál.

12. gr. Í atkvæðagreiðslu um einstaka liði dagskrár ræður einfaldur meirihluta greiddra atkvæða, en um breytingar á lögum félagsins þarf 2/3 greiddra atkvæða. Fái fleiri en þeir sem kjósa á jafnmörg atkvæði skal kjósa um þá á ný. Verði þeir enn jafnir ræður hlutkesti.

13. gr. Tillögur um breytingar á lögunum skulu hafa borist stjórn eigi síðar en 14 dögum fyrir aðalfund. Framkomnar breytingartillögur skulu kynntar á www.liverpool.is a.m.k. 7 dögum fyrir aðalfund.

4. kafli
Stjórn félagsins

14. gr. Kjörgengi til stjórnar hafa allir sem uppfylla ákvæði 10. gr. um atkvæðis- og tillögurétt.

15. gr. Stjórn félagsins skipa 7 menn ( formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og 3 meðstjórnendur ) sem kosnir eru á aðalfundi. Einnig er kosnir tveir varamenn og taka þeir sæti í stjórn í sömu röð og þeir voru kosnir. Formaður er kosinn sér á aðalfundi en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. Formaður getur aðeins setið 3 kjörtímabil ( 6 ár ) samfleytt. Framboðum til stjórnarkjörs skal skila eigi síðar en 14 dögum fyrir aðalfund.

16. gr. Hætti stjórnarmaður á miðju tímabili tekur varamaður sæti hans í stjórn fram að næsta aðalfundi. Ef stjórnarmaður hættir á fyrra starfsári sínu skal kosið um sæti hans á næsta aðalfundi til eins árs.

17. gr. Formaður boðar stjórnarfundi og stýrir þeim. Fundi skal halda svo oft sem þurfa þykir. Ef þrír eða fleiri stjórnarmenn krefjast þess að fundur sé haldinn skal formaður boða til stjórnarfundar.

18. gr. Stjórn félagsins stýrir félaginu milli aðalfunda með þeim takmörkunum er lög þessi setja.Hún tekur ákvarðanir um starfsemi félagsins og ber ábyrgð á fjárreiðum þess. Hún skuldbindur félagið gagnvart öðrum aðilum og þarf meirihluta stjórnar til þess.

19. gr. Stjórnarfundur er ályktunarfær ef meirihluti stjórnar sækir hann, enda hafi verið boðið til hans með hæfilegum fyrirvara.  Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Ef atkvæði falla jafnt ræður atkvæði formanns ( vara-formanns ) úrslitum.

20. gr. Stjórn félagsins er heimilt að skipa starfshópa eða ráð til að sinna einstökum verkefnum og skulu þeir / þau starfa í umboði og á ábyrgð stjórnar.

21. gr. Gerðir stjórnarinnar skulu bókfærðar. Í hana skal skrá ákvarðanir stjórnar. Í lok fundar skal fundargerð lesin upp fundarmenn rita nafn sitt til samþykkis.

5. kafli
Ýmis ákvæði

22. gr. Reikningsár Liverpoolklúbbsins er frá  1. maí - 30. apríl. Gera skal ársreikning fyrir hvert reikningsár og skal hann innihalda rekstrarreikning, efnahagsreikning og skýringar. Árseikningur skal undirritaður af endurskoðanda og stjórn félagsins.

23. gr. Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi.

24. gr. Stjórn er heimilt að útnefna heiðursfélaga Liverpoolklúbbsins ef stjórnin er einhuga um það.

25. gr.  Lög þessi öðlast þegar gildi.

Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi Liverpoolklúbbsins 27. maí 2015.

TIL BAKA