Um vefinn

Ein mesta bylting í starfsemi Liverpoolklúbbsins var þegar vefurinn liverpool.is var opnaður þann 1. október 1999. Með tilkomu vefsins var hægt að koma tilkynningum frá stjórn klúbbsins, fréttum, úrslitum og öðru efni til félagsmanna á fljótlegan máta.

Það var haustið 1999 sem Guðmundur Þór Magnússon (Mummi) þáverandi gjaldkeri klúbbsins klúbbsins leitaði til Árna Gunnars Ragnarssonar með að hanna heimasíðu fyrir Liverpoolklúbbinn á Íslandi. Í kjölfarið hannaði Árni Gunnar fyrsta útlit www.liverpool.is.

Það er óhætt að segja að viðbrögðin létu ekki á sér standa. Heimsóknarmet hafa verið slegin mjög reglulega og hefur vefurinn lengi verið meðal vinsælustu vefja landsins samkvæmt samræmdri veftalningu Modernus.is.

Vefurinn hefur verið aðalstoppistöð meðlima klúbbsins og vefurinn sá fyrsti sinnar tegundar hér á landi. Í kjölfarið hafa svo verið settir upp sambærilegar heimasíður fyrir aðra stuðningsmannaklúbba. Það er því með sanni hægt að segja að www.liverpool.is hafi verið brautryðjandi á þessu sviði.

Margir hafa lagt hönd á plóginn við uppfærslur á vefnum. Í upphafi voru það fjórir aðilar sem sáu um að koma þessu á koppinn. Mummi sá um vefstjórnina, Arngrímur Baldursson (AB) sá um að safna efni og upplýsingum. Árni Gunnar sá um forritun og útlit ásamt Mumma, og Sigursteinn Brynjólfsson (SSteinn) sá um fréttaskrifin.

Fréttaskrif hafa í gegnum árin verið stærsti hlutinn á vefnum og sá partur sem líklega hefur fest vefinn í sessi þannig að menn komu reglulega til að skoða hann. Alls voru skrifaðar 6.820 fréttir á fyrstu 5 árum vefsins. Atkvæðamestir við fréttaskrifin voru Sigfús Guttormsson (Sf. Gutt), Arngrímur Baldursson (AB), Sigursteinn Brynjólfsson (SSteinn) og Hallgrímur Indriðason (HI).

Alls hafa rúmlega 20 aðilar komið að fréttaskrifum frá upphafi www.liverpool.is.

Spjallborðið er einnig stór hluti af vefnum. Þar hefur myndast samfélag í gegnum tíðina og eru þeir nokkrir sem hafa alist þar upp, ef svo má að orði komast. Um 4.000 notendur hafa skráð sig á spjallið frá upphafi, þó svo að menn séu reyndar misvirkir. Eins og með vefinn þá hefur spjallborðið á www.liverpoool.is verið leiðandi á sínu sviði á Íslandi.

Í dag eru það Mummi (vefstjóri) og Arngrímur (ritstjóri) sem bera hitann og þungann af rekstri www.liverpool.is. Sérvalinn hópur fréttaritara með Sigfús Guttormsson fremstan í flokki sem endranær sér um að skrifa fréttir á vefinn. Auk Sigfúsar eru fréttaritarar á liverpool.is: Arnar Magnús Róbertsson, Arngrímur Baldursson, Grétar Magnússon, Hallgrímur Indriðason og Ólafur Haukur Tómasson. Annar hópur sér svo um stjórnun spjallsins.

Helstu dagsetningar.

  • 1999 - Vefurinn opnaður. Vefurinn hjá Islandia. Spjallborð sett í loftið.
  • 2000 - Byrjað að skrásetja fréttir í gagnagrunn. Búið til kerfi til að viðhalda leikjum og leikmönnum í gagnagrunni. Settur í gangi póstlisti fyrir vefinn. Vefurinn flytur til Noregs og vistaður hjá Nethouse.
  • 2001 - Vefurinn fær nýtt útlit á 2 ára afmælisdeginum. Nýtt spjallborð tekið í notkun. Vefurinn flytur aftur heim og er vistaður hjá Nett á Akureyri. Félagsskrá sett upp á vefnum.
  • 2002 - Vefurinn tilnefndur til Íslensku vefverðlaunanna í flokkunum besti afþreyfingarvefurinn og besti íslenski vefurinn. 5 vefir voru til úrslita í hvorum flokki. Vefurinn fluttur á milli vistunaraðila og fer til Skýrr.
  • 2003 - Nýtt spjallborð tekið í notkun. Það besta í sögu vefsins. Nýtt greinakerfi tekið í notkun til að viðhalda þeim gögnum sem fyrir voru á vefnum. Mummi hættir sem vefstjóri og Gunnar Stefánsson tekur við.
  • 2004 - Ýmsar nýjungar á spjallborði kynntar.
  • 2005 - Mummi tekur aftur við sem vefstjóri vefsins. Vefurinn er alveg tekinn í gegn og forritaður uppá nýtt ásamt því að vefurinn fær nýtt útlit.
Skjáskot af vefnum í gegnum tíðina:
Fyrsta útlit vefsins árið 1999
liverpool.is árið 2000. Takið eftir fréttinni um Biscan. Góðir tímar.
 
Árið 2002

 
Árið 2004. Benítez að taka við Liverpool.

 
Árið 2005. Liverpool stefnir á úrslitaleikinn í Istanbul.

 
Árið 2005. Sérstakur toppbanner vegna sigursins í Istanbul.

 
Núverandi útlit vefsins.


TIL BAKA