Erlendir leikmenn hjá Liverpool
Liverpool byrjaði árið 1925 að kaupa leikmenn utan Bretlandseyja og komu þeir eingöngu frá S-Afríku. Liverpool keypti alls tíu leikmenn frá S-Afríku á árunum 1925-54. Þrír þeirra unnu hug og hjörtu púllara og er minnst með mikilli virðingu. Gordon Hodgson var aðalmarkaskorari Liverpool í fjöldamörg ár og skoraði alls 241 mark í 377 leikjum og er þriðji markahæsti leikmaður í sögu félagsins. Barry Nieuwenhuys lék 260 leiki og skoraði 79 mörk þau 13 ár sem hann lék hjá Liverpool. Arthur Riley lék 338 leiki í marki Liverpool á árunum 1925-40 en hinir sjö mörkuðu ekki djúp spor í sögu félagsins.
Árið 1979 urðu svo þáttaskil er Liverpool leitaði aftur út fyrir landssteinana í fyrsta skipti í 25 ár en í þetta skiptið renndu þeir hýru auga til Ísraels en Abraham "Avi" Cohen sem var keyptur frá Tel Aviv í Ísrael hafði fremur skamma viðdvöl á Anfield. Tveim árum síðar kom S-Afríkubúinn Bruce Grobbelaar (fæddur í Durban) til liðsins og lék alls 440 leiki (1981-94). Grobbelaar er farsælasti erlendi leikmaður sem spilað hefur með Liverpool (Evrópubikar, 6 deildarmeistaratitlar, 3 deildarbikarar og 3 gullmedalíur í FA Cup). Jan Molby var síðan keyptur árið 1984 frá Ajax í Hollandi á 250.000 pund og eru menn sammála í Liverpool um að Molby er besti innflutningur frá Danmörku síðan þeir byrjuðu að flytja inn Carlsberg.
Kenny Dalglish naut krafta Molby og Grobbelaar en eftir þriggja ára setu í framkvæmdastjórastól fannst honum tími til kominn að bæta við útlendingahersveitina. Dalglish keypti Svíann Glenn Hysen frá Fiorentina og Ronnie Rosenthal frá Ísrael. Hysen stóð sig vel í eitt tímabil en virtist svo útbrunninn eftir það og var Alex Ferguson örugglega kampakátur með það en Hysen tók boði Liverpool framyfir tilboði Man Utd. Rosenthal átti stuttan en mjög skrautlegan feril hjá Liverpool en því miður náði hann aldrei annað en að vera "Supersub", tólfti maður sem átti að hrista upp í leiknum í seinni hálfleik.
Stig Inge Björnebye var keyptur í tíð Souness á 600.000 pund. Hann stóð sig ágætlega í mörgum leikjum en hann var bara alltof óstöðugur leikmaður. Þegar hann var góður þá var hann einn besti maðurinn á vellinum en þegar hann var lélegur þá var hann lélegri en allt sem lélegt er. Daninn Torben Piechnik var síðan keyptur frá Bröndby og er varla hægt að minnast á kappann án þess að ná sér í Kleenex. Á meðan Souness vippaði út hálfri milljón punda fyrir Piechnik keypti Howard Wilkinson Eric Cantona á milljón. Ef þið eruð búin að jafna ykkur á þessari staðreynd þá vill svo skemmtilega til að það var einmitt Gerard Houllier sem var að baki kaupum Eric Cantona til Leeds og stuðlaði þar óbeint að Man Utd er eins framarlega eins og það er í dag. Souness var sannarlega ekki hættur, það botnaði gjörsamlega enginn í kaupunum á ungversku "stórstjörnunni" Istvan Kozma frá Dunfermilne í Skotlandi. Souness sagði að hann hafði alltaf hrifist af kappanum er hann lék gegn honum með Rangers. Það sá því miður enginn það sama og Souness sagðist hafa séð í honum. Danski markvörðurinn Michael Stensgaard slasaðist er hann var að strauja heima hjá sér og hætti hjá Liverpool.
Það má náttúrulega ekki gleyma tveimur leikmönnum sem voru keyptir til Englands af öðrum liðum en Liverpool. Craig Johnston var fæddur í Jóhannesarborg í S-Afríku en Middlesbrough keypti hann til Englands. Enski landsliðsmaðurinn John Barnes frá Jamaíka er einnig í hávegum hafður sem einn besti leikmaður sem klæðst hefur treyju Liverpool.
Evans byrjaði ágætlega er hann keypti Patrik Berger. Kappinn átti í erfiðleikum til þess að byrja með en síðan Houllier kom er nýr og betri maður. Evans keypti síðan Oyvind Leonhardsen á 3.5 milljónir og Karl-Heinz Riedle á 1.5 milljón punda og það geta varla talist tímamótakaup en á meðan Evans var að bögglast við að fá þessa kappa til liðsins keypti Arsene Wenger Patrick Vieira á 3.5 milljón, Nicolas Anelka á hálfa milljón og Emmanuel Petit á 3.5 milljón punda. Samanburðurinn er ekki beint hagstæður Liverpool en þetta sýnir ennfremur að það er mjög mikilvægt að hafa innanbúðarmenn í meginlandsknattspyrnu við stjórnvölinn eins og Arsene Wenger og Gerard Houllier. Aðrir erlendir leikmenn sem komu til Anfield fyrir tilstuðlan Evans voru Haukur Ingi Guðnason sem markaði ekki djúp spor í sögu Liverpool, Ítalinn Nicky Rizzo fór til Crystal Palace án þess að komast í aðalliðið, Jörgen Nielsen á ekki séns, Brad Friedel sem enginn skilur enn útaf hverju Evans lagði svo mikla áherslu á að fá til liðsins, Sean Dundee sem Houllier losaði sig við og Heggem sem reyndust síðustu kaup hans.
Það er óhætt að segja að í kjölfar þess að Gerard Houllier tók einn við liðinu varð grundvallarbreyting á kaupstefnu Liverpool. Houllier keypti fjölmarga erlenda leikmenn en okurverð á enskum leikmönnum hefur hrakið margan framkvæmdastjórann út fyrir landssteinana til þess að styrkja lið sitt. Rafael Benítez hefur einnig fetað þessa braut og oftar en ekki keypt leikmenn sem léku í heimalandi hans enda þeir leikmenn sem hann þekkir best. Ekki kvartar maður yfir því að framkvæmdastjórar Liverpool kaupi leikmenn erlendis frá enda skiptir ekki máli hvaðan þeir eru svo framarlega sem að þeir séu góðir leikmenn.