| Sf. Gutt

Skellur á Goodison Park

Leikmenn Liverpool vöknuðu illa í morgun og máttu þola hroðalegan skell gegn Everton. Allt gekk á afturfótunum á Goodison Park og varnarleikur Liverpool var í miklum ólestri. Niðurstaðan varð 3:0 tap sem mun vera versta tap Liverpool fyrir Everton í 42 ár. Nógu slæmt var að tapa leiknum en þetta afhroð var óásættanlegt.

Það var blár himinn í Liverpool á meðan á leiknum stóð og það var góðs viti fyrir Everton að þessu sinni. Liverpool hóf reyndar leikinn vel. Robbie Fowler lék strax upp að teignum í fyrstu sókn og skaut að marki eftir sjö sekúndur. Tim Howard varði skotið örugglega. Eftir um tíu mínútur virtist svo sem einn varnarmanna Everton rækist í Robbie innan teigs og hefði mátt dæma vítaspyrnu. Það var þó ekki gert. Luis Garcia átti svo skot litlu seinna, eftir snögga sókn, sem Tim varði. En líkt og flestum leikjum leiktíðarinnar fékk Liverpool á sig mark upp úr þurru. Á 23. mínútu kom sending inn á teig frá hægri. Leon Osman náði að halda Steve Finnan frá boltanum sem fór til Tim Cahill. Ástralinn var á auðum sjó fyrir miðjum marki og skoraði auðveldlega. Leikmenn Liverpool reyndu að svara fyrir sig. Eftir hálftíma leik Luis Garcia átti fast skot að marki sem Tim varði. Boltinn hrökk til Steven Gerrard sem rétt náði að stýra boltanum að marki úr þröngu færi en boltinn fór í stöngina. Litlu síðar átti Steven skot rétt framhjá. Ekki batnaði ástandið á 35. mínútu. Aftur kom sending inn á teiginn frá hægri. Sami Hyypia lék boltann eiga sig því Jamie Carragher var vel staðsettur til að bægja hættunni frá. Það ótrúlega gerðist að Jamie hitti ekki boltann sem fór til Andy Johnson og hann lét ekki happ úr hendi sleppa og skoraði. Staðan var nú orðin mjög vænleg fyrir heimamenn en stuðningsmenn Liverpool veltu því fyrir sér hvort Jamie væri orðinn nógu góður af meiðslunum, sem hann varð fyrir í fyrstu umferð deildarinnar, til að leika þennan leik.

Lengi vel gekk ekkert hjá Liverpool í síðari hálfleik og það var ekki fyrr en um miðjan hálfleikinn sem leikmenn Liverpool fóru að ógna marki Everton. Á 65. mínútu slapp Steven inn á vítateiginn hægra megin en hann skaut framhjá. Hann var í næstum sömu stöðu og þeirri sem hann skoraði svo glæsilega úr gegn Andorra um síðustu helgi. Fimm mínútum síðar átti varamaðurinn Dirk Kuyt gott skot sem Tim Howard varði vel. Enn sótti Liverpool og litlu síðar slapp Steven aftur inn á teiginn hægra megin. Skot hans fór í stöng. Dirk Kuyt náði að koma frákastinu að marki en Tony Hibbert komst fyrir. Boltinn fór í aðra hendina á honum og Liverpool hefði átt að fá vítaspyrnu. Sú litla von sem lifði um endurkomu slokknaði endanlega tíu mínútum fyrir leikslok þegar John Arne Riise, sem kom inn sem varamaður, var borinn af leikvelli illa meiddur á ökklanum sem hann meiddist á í fyrsta leik deildarinnar gegn Sheffield United. Rafael var búinn að skipta öllum varamönnum inn og Liverpool lék einum færri það sem eftir var. Heimamenn notfærðu sér þetta á síðustu mínútunum. Fyrst átti Gary Naysmith skot rétt yfir og á lokamínútunni kom síðasta reiðarslag dagsins. Lee Carsley átti þá fast skot að marki utan teigs. Boltinn fór beint á Jose Reina sem sló boltann upp í loftið. Hann virtist svo óttast það að boltann hrykki inn í marki og blakaði honum frá markinu. Sú vanhugsaða tilraun tókst ekki betur til en það að boltinn lenti beint á höfðinu á Andy Johnson sem skallaði í mark af nokkurra sentimetra færi. Þetta ólánsmark kórónaði hroðalegan dag á Goodison Park.

Everton: Howard, Hibbert, Yobo, Lescott, Naysmith, Osman (Beattie 83. mín.), Neville, Carsley, Arteta (Valente 90. mín.), Cahill og Johnson. Ónotaðir varamenn: Wright, Weir og Van der Meyde.

Mörk Everton: Tim Cahill (24. mín.) og Andy Johnson (36. og 90. mín.)

Gul spjöld: Joseph Yobo.  

Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Aurelio, Gerrard, Alonso, Sissoko (Pennant 78. mín.), Luis Garcia, Fowler (Riise 64. mín.) og Crouch (Kuyt 53. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek og Agger.

Gul spjöld: Mohamed Sissoko, John Arne Riise og Sami Hyypia.

Áhorfendur á Goodison Park: 40.004.

Maður leiksins: Mohamed Sissoko. Malímaðurinn sneri aftur eftir meiðsli og var besti maðurinn í liði Liverpool. Hann hefur oft leikið betur en hann gafst aldrei upp og reyndi sitt besta.

Rafael Benítez var skiljanlega niðurlútur eftir leikinn. "Við gerðum fullt af mistökum. Varnarleikur okkar var slakur og við gerðum alltof mörg mistök. Á síðustu leiktíð héldum við marki okkar oft hreinu og við þurfum að finna út úr því hvers vegna við fáum núna svona auðveldlega mörk á okkur. Einhver sagði mér að við hefðum átt 21 skot að marki en það telur ekkert ef færin eru ekki notuð."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan