Landsleikjafréttir

Riðlakeppni forkeppni Heimsmeistarakeppninnar er nú að mestu lokið. Ekki er þó ljóst um allar þátttökuþjóðir því umspil er eftir.
Í gærkvöldi gekk mikið á í Glasgow þegar Skotland fékk Danmörk í heimsókn. Danir voru fyrir ofan fyrir leikinn en Skotar gátu náð efsta sætinu með sigri. Skotar komust yfir strax í byrjun en Danir náðu að jafna eftir hlé. Þegar 12 mínútur voru eftir komst Skotland yfir á nýjan leik en Danmörk jafnaði fjórum mínútum seinna. Allt stefndi í jafntefli en Skotar unnu stórkostlegan sigur með því að skora tvö mörk í viðbótartíma og vinna 4:2. Skotland er þar með komið á HM í fyrsta sinn frá því 1998. Andrew Robertson var fyrirliði Skotlands og stóð fyrir sínu. Hann gaf reyndar vítaspyrnu en það kom ekki að sök þegar upp var staðið. Danir þurfa í umspil en það verður þjóðhátíð í Skotlandi næstu daga og jafnvel vikur!
Georgía tapaði 2:1 í Búlgaríu. Giorgi Mamardashvili var í marki Georgíumanna.
Wales komst í umspil eftir að hafa burstað Norður Makedóníu 7:1 í Cardiff. Makedóníumenn hefðu gatað náð umspili með sigri. Harry Wilson, fyrrum leikmaður Liverpool, gekk berserksgang og skoraði þrennu. Eitt markið var úr víti. Neco Williams, sem líka lék með Liverpool, spilaði líka með Wales. Lewis Koumas, sem er í láni hjá Birmingham City, var varamaður.
Wataru Endo var í liði Japans sem vann Bólivíu 3:0. Þetta var vináttuleikur.
Luis Días, fyrrum leikmaður Liverpool, skoraði eitt marka Kólumbíu sem vann 3:0 sigur á Ástralíu í vináttuleik.
Enn einn fyrrum leikmaður Liverpool lét til sín taka. Sadio Mané skoraði þrennu, eitt markið kom úr vítaspyrnu, þegar Senegal rótburstaði Kenía 8:0. Hann er nú búinn að skora 51 mark fyrir Senegal.
Holland vann öruggan 4:0 sigur á Litháen á mánudagskvöldið. Virgil van Dijk og Cody Gakpo voru í byrjunarliði Hollands. Ryan Gravenberch var á bekknum allan leikinn sem var hið besta mál. Cody skoraði úr víti og lagði líka upp mark. Hann þótti besti maður vallarins. Virgil komst í metabækur með því að vera fyrirliði Hollands í 72. sinn. Holland er komið á HM.
Þýskaland fór á kostum og vann Slóvakíu 6:0. Með sigrinum tryggðu Þjóðverjar sigur í riðlinum. Florian Wirtz var frábær og lagði upp tvö mörk.
Norður Írar unnu Lúxemborg 1:0 í Belfast. Conor Bradley var fyrirliði. Hann spilaði fyrri hálfleikinn.

Á sunnudaginn unnu Frakkar öruggan útisigur 1:3 í Aserbaísjan. Ibrahima Konaté leiddi Frakka sem fyrirliði. Hugo Ekitike var líka í byrjunarliðinu.
Írland vann ævintýralegan 2:3 sigur í Ungverjalandi. Ungverjar komust tvívegis yfir en Írar jöfnuðu í bæði skiptin og tryggðu sér svo sigur í viðbótartíma. Troy Parrott skoraði öll mörk Íra. Dominik Szoboszlai og Milos Kerkez lögðu upp mörk heimamanna. Með sigrinum komust Írar í umspil. Jafntefli hefði gefið Ungverjum sæti í umspilinu. Caoimhin Kelleher var í marki Íra. Fyrrum markmaður Liverpool átti sendinguna inn í vítateiginn sem olli uslanum sem úrslitamarkið kom upp úr. Heimir Hallgrímsson er þjálfari írska landsliðsins.
England vann 0:2 sigur í Albaníu. Jarel Quansah, fyrrum leikmaður Liverpool, lék sinn fyrsta landsleik. Hann er búinn að vera nokkrum sinnum í landsliðshópnum en nú var komið að fyrsta leiknum.
-
| Sf. Gutt
Litli strákurinn yrði sennilega undrandi! -
| Sf. Gutt
Virgil kominn í metabækur hjá Hollandi! -
| Sf. Gutt
Dominik er sama hvar hann spilar -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Í minningu -
| Sf. Gutt
Vill endurgjalda stuðningsmönnunum -
| Mummi
Miðasala á Liverpoolleiki -
| Sf. Gutt
Óvíst með Ibrahima Konaté -
| Sf. Gutt
Vopnahlésdagurinn -
| Sf. Gutt
Ekkert mark í fyrsta sinn í rúmt ár!

