| Sf. Gutt

Allt í uppnámi eftir hörð orð Mohamed Salah!

Allt er í uppnámi eftir hörð orð Mohamed Salah við blaðamenn eftir leik Liverpool í Leeds í gærkvöldi. Óhætt er að segja að það sem hann lét hafa eftir sér hafi komið öllum í opna skjöldu. Liverpool og Leeds United skildu jöfn 3:3 á Elland Road. Í leiknum var Mohamed varamaður þriðja leikinn í röð. Hann kom ekkert inn á gegn West Ham United um síðustu helgi og ekki heldur í gærkvöldi. Hann spilaði seinni hálfleikinn í leik Liverpool og Sunderland á miðvikudagskvöldið.

„Ég er hafður á varamannabekknum í fyrsta sinn á ferlinum. Ég er mjög vonsikinn. Ég hef gert svo mikið fyrir þetta félag. Ég skil ekki af hverju þetta hendir mig núna. Ef ég væri einhvers staðar annars staðar myndi svona sögufrægt félag vernda leikmanninn sinn. Ég skil ekkert í því hvers vegna ég er í þessari stöðu. Það er eins og mér hafi verið hent undir rútuna því ég sé vandamálið. Mér finnst að ég sé ekki vandamálið."

Egyptinn lét svo að því liggja að leikur Liverpool við Brighton á Anfield Road um komandi helgi gæti orðið síðasti leikur hans í röðum Liverpool. Eftir leikinn fer hann til liðs við landslið Egyptalands sem tekur þátt í Afríkukeppninni á næstu vikum. Keppnin stendur yfir fram á nýja árið. 

Mohamed kom víða við. Hann segir einhvern hjá félaginu vilja að hann fari í burtu. Eins kom hann að því að honum finnist að samband sitt við Arne Slot, framkvæmdastjóra Liverpool, sé búið að vera. 

,,Ég held að það sé á hreinu að einhver vill að ég sé sá sem fær alla sökina. Ég hef oft sagt að ég hafi gott samband við framkvæmdastjórann. En allt í einu er ekkert samband til staðar. Ég veit ekkert um ástæður þess en ég sé ekki betur en einhver vilji að ég verði ekki lengur hjá félaginu."

Mohamed sagði að ást hans til Liverpool hafi ekkert breyst. ,,Ég mun alltaf styðja félagið. Börnin mun munu alltaf halda með Liverpool. Ég elska félagið afar heitt og það mun aldrei breytast."

Egyptinn var spurður hvort vandinn væri óleysanlegur. ,,Ég útiloka ekki að hægt sé að leysa vandann. En mér finnst ég hafa gert svo mikið fyrir félagið. Ég elska stuðningsmennina og félagið af öllu hjarta. En ég veit ekki hvað gerist næst."

Ljóst er að allt er í uppnámi á Anfield eftir þetta viðtal. Mohamed hefur óhjákvæmilega beint spjótum sínum að Arne Slot framkvæmdastjóra Liverpool. Mohamed hefur ekki verið skugginn af sjálfum sér á þessu keppnistímabili. Það var því ekkert undarlegt þó Arne hafi sett hann á varamannabekkinn. En það má öllum ljóst vera að Mohamed sættir sig ekki við það.

Mohamed hefur áður komið fram og tjáð sig á umdeildanlegan hátt. Á síðustu leiktíð gerði hann það þegar honum fannst ekkert hafa þokast í viðræðum um nýjan samning við félagið. Hann gerði svo nýjan samning við Liverpool til tveggja ára í apríl en nú gæti svo farið að hann sé á förum. Áhugi var á honum í Sádi Arabíu þar til hann gerði nýja samninginn. 

Hvað sem úr verður er ljóst að þetta viðtal kom á allra versta tíma. Eins og gengi Liverpool hefur verið síðustu tvo mánuðina eða svo má illa við svona uppþoti sem viðtalið óneitanlega hefur valdið. 

Sumir fjölmiðlamenn telja að Mohamed Salah muni verða seldur. Aðrir telja að Arne gæti verið látinn fara á næstu vikum og þá myndi myndin breytast. Óvíst er hvort Mohamed verður í liðshópi Liverpool sem fer til Ítalíu á morgun til leiks við Inter Milan á þriðjudagskvöldið. Hvernig sem liðskipan Liverpool verður í næstu tveimur leikjum, gegn Inter og Brighton, gefst færi á að fara yfir málin þegar Mohamed fer í Afríkukeppnina. 

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan