| Sf. Gutt

Góð uppskera suður við Miðjarðarhaf!

Óhætt er að segja að Liverpool hafi uppskorið vel suður við Miðjarðarhaf í kvöld. Liverpool vann góðan 0:3 sigur í Marseille. Sigurinn tryggir svo gott sem beint áframhald í keppninni. 

Mohamed Salah kom beint inn í byrjunarliðið eftir endurkomu sína frá Marokkó. Joe Gomez fékk sæti við hlið Virgil van Dijk í hjarta varnarinnar. Ástæðan var sú að Ibrahima Konaté var hjá fjölskyldu sinni í Frakklandi af persónulegum ástæðum. 

Heimamenn byrjuðu betur enda með gríðarlegan stuðning frá stuðningsmönnum sínum. Liverpool kom svo meira inn í leikinn. Á 27. mínútu ógnaði Amine Gouiri eftir aukaspyrnu en Alisson Becker varði. Mohamed Salah var svo ágengur á 40. mínútu eftir fyrirgjög Jeremie Frimpong en boltinn fór yfir af mjöðm hans. Tveimur mínútum var bætt við hálfleikinn. Á fyrstu mínútu þess tíma kom mark og það af dýrari gerðinni. Liverpool fékk aukaspyrnu rétt utan við vítateiginn. Dominik Szoboszlai laumaði boltanum undir varnarvegg heimamanna og beinustu leið í markið. Snilldarlega gert. Enginn lá að baki veggjar og skot Ungverjans var fullkomlega afgreitt. Óskaendir á hálfleiknum. 

Marseille átti góða sókn á 52. mínútu. Mason Greenwood skaut út í hægra hornið rétt við vítateiginn en Alisson varði vel með því að slá boltann í horn. Sjö mínútum seinna lagði Dominik upp gott færi fyrir Hugo Ekitike í vítateignum. Frakkinn smellhitti boltann en hann hafnaði í stönginni rétt neðan við vinkilinn. Óheppni! Fjórum mínútum seinna komst Florian Wirtz í skotfæri vinstra megin í teignum en Geronimo Rulli varði.

Á 72. mínútu braust Jeremie framhjá varnarmanni hægra megin og fram að endalínunni. Hann ætlaði að senda á félaga sinn inni í markteignum. Það tókst ekki en allt fór á besta veg því boltinn fór í fór fót Geronimo og þaðan í markið. Allt getur gerst í knattspyrnu!

Sjö mínútum fyrir leikslok lagði varamaðurinn Cody Gakpo upp færi fyrir Mohamed. Hann var í dauðafæri en skot hans var algjörlega mislukkað og boltann fór vel framhjá hægri stönginni. Á annarri mínútu viðbótartíma lagði Mason upp færi fyrir Pierre Aubameyang. Hann náði föstu skoti úr vítateignum en Alisson varði stórvel. Liverpool fór strax fram í sókn. Ryan Gravenbach sendi fram á Cody sem skoraði, rétt utan við markteiginn, af öryggi neðst út í hægra hornið. Stórgóður sigur Liverpool í öryggri höfn í hafnarborginni!

Uppskera Liverpool suður við Miðjarðarhafið var sannarlega góð. Liðið lék vel og vann á mjög erfiðum útivelli. Liverpool er nú í lykilstöðu í deildarkeppni Meistaradeildarinnar. Sigur í síðustu umferð tryggir beint áframhald í keppninni. 

Mörk Liverpool: Dominik Szoboszlai (45 +1. mín.), Geronimo Rulli, sm, (72. mín.) og Cody Gakpo (90 +3. mín.).

Áhorfendur á Stade Vélodrome: 65.631.

Maður leiksins: Joe Gomez. Hugsanlega var einhver betri en Joe en hann sýndi sannarlega hversu góður miðvörður hann er. Það versta er hversu oft hann hefur verið frá vegna meiðsla síðustu misseri. 

 

Fróðleikur

- Dominik Szoboszlai og Cody Gakpo eru nú komnir með sjö mörk.

- Virgil van Dijk lék sinn 350. leik fyrir hönd Liverpool. 

- Hann hefur skorað 30 mörk og lagt upp tíu.

- Þetta var 13. leikur Liverpool í röð án taps í öllum keppnum. 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan