Af kvennaliðinu
Nú er komið að landsleikjahléi í kvennaknattspyrnudeildunum. Kvennalið Liverpool hefur verið í miklum vandræðum hingað til á leiktíðinni.
Fyrir leiktíðina var umrót. Gareth Taylor tók við liðinu. Amber Whiteley hafði stýrt því frá í febrúar. Hún heldur áfram í þjálfaraliðinu. Gareth þjálfaði áður Manchester City. Liðið vann FA bikarinn og Deildarbikarinn á valdatíð hans þar.
Efnilegasta knattspyrnukona Englands Olivia Smith var seld til Arsenal fyrir metfé eða eina milljón sterlingspunda. Það var auðvitað gott að fá gott verð fyrir hana en slæmt að missa hana. Taylor Hinds, ein sú traustasta í leikmannahópnum, fór líka til Arsenal.
Fyrsti deildarleikur Liverpool var við Everton á Anfield Road 7. september. Liverpool fór illa út úr þeim leik og tapaði 1:4. Enn og aftur tapar kvennaliðið á Anfield.
Um miðjan september mætti Liverpool Leicester City á útivelli. Aftur varð tap staðreynd. Nú 1:0.
Í lok steptember kom Manchester United í heimsókn. Liverpool tapaði 0:2.
Fyrsti leikurinn í október var gegn London City Lionesses. Liverpool fékk á sig víti þegar mínúta var eftir. Heimakonur nýttu vítið og unnu 1:0.
Um síðustu helgi mætti Liverpool Manchester City á Anfield. Liverpool komst yfir en City sneri leiknum sér í vil og vann 1:2. Enn gengur illa á Anfield.
Þar með liggur fyrir að Liverpool hefur tapað fyrstu fimm leikjum sínum í deildinni. Liðið er næst neðst. West Ham United er líka án stiga en er með verra markahlutfall. Liverpool á leik til góða á útivelli við Aston Villa. Chelsea er í efsta sæti með 16 stig.
Tveir leikir eru að baki í riðlakeppni Deildarbikarsins. Þar er ljósið í myrkrinu því Liverpool hefur unnið báða leikina og leiðir sinn riðil. Liverpool vann fyrst Sunderland 5:0 seinni hlutann í september og í kvöld lagði liðið Durham Woman FC að velli 1:2 á útivelli. Góðir sigrar en tekið skal fram að báðr mótherjarnir eru í næst efstu deild. Liverpool vinnur riðilinn og fer áfram í keppninni ef liðið tapar ekki fyrir Sheffield United í síðustu umferð.
Þann 20. september lést Matt Beard fyrrum framkvæmdastjóri kvennaliðsins. Fráfall hans var auðvitað ólýsanlegt áfall fyrir kvennaliðið og allt það fólk sem starfar í kringum liðið. Matt stjórnaði Liverpool í annað sinn frá vorinu 2021 og þar til í febrúar á þessu ári. Flestar í liðinu léku því undir hans stjórn. Missir allra sem tengjast kvennaliðinu er mikill.
-
| Sf. Gutt
Fyrir 15 árum! -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Leikjatilfærslur -
| Sf. Gutt
Álfumet hjá Mohamed Salah! -
| Sf. Gutt
Ibrahima Konaté ekki til Íslands -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Goðsagnirnar unnu! -
| Sf. Gutt
Hefði betur þagað! -
| Sf. Gutt
Minningarorð Jürgen Klopp -
| Sf. Gutt
Það var fyrir tíu árum!