Sterkur sigur!
Liverpool vann í dag sterkan 2:1 sigur á Brighton and Hove Albion eftir að hafa lent marki undir. Það eru alltaf sætustu sigrarnir. Sigurinn kom Liverpool upp í efsta sæti deildarinnar. Liverpool lagði Brighton þar með í annað sinn á fjórum dögum.
Eftir fjölmargar breytingar á liðinu fyrir Deilarbikarleikinn var liðinu aftur breytt. Aðeins tveir leikmenn héldu byrjunarliðssætum sínum frá því á miðvikudagskvöldið í Brighton. Lið Brighton var líka gerbreytt.
Fyrsta færi leiksins fékk Darwin Núnez. Hann braust fram völlinn frá miðju og inn í vítateiginn en Bart Verbruggen varði skot hans. Reyndar var þetta það eina sem Liverpool sýndi á upphafskaflanum og það kom ekki endilega á óvart þegar Mávarnir komust yfir á 14. mínútu. Eftir gott spil fram vinstri kantinn gekk boltinn til hægri á Ferdi Kadioglu. Hann kom boltanum fyrir sig og skoraði svo með skoti neðst í fjærhornið í stöng og inn óverjandi fyrir Caoimhin Kelleher.
Brighton hélt áfram að spila vel. Á 26. mínútu komst Georginio Rutter fram að vítateig Liverpool án þess að Virgil van Dijk næði að stoppa hann. Caoimhin var vel á verði og varði með fæti eftir að hafa komið út á móti. Vel varið. Fimm mínútum fyrir hlé tók Danny Welbeck aukaspyrnu rétt utan við vítateiginn. Hann kom boltanum framhjá varnarveggnum en boltinn fór líka hárfínt framhjá stönginni. Brighton hafði forystu í hálfleik og hana verðskuldaða. Liverpool hafði varla leikið verri hálfleik á leiktíðinni hingað til.
Joe Gomez kom inn í hálfleik fyrir Ibrahima Konaté sem meiddist á hendi eftir að Virgil steig á hendina. Leikmenn Liverpool komu miklu betur stemmdir til leiks eftir hlé. Á 53. mínútu gaf Cody Gakpo fyrir frá vinstri á Alexis Mac Allister. Hann henti sér fram og skallaði að marki en Bart varði. Liverpool sótti áfram og rétt á eftir gaf Trent Alexander-Arnold inn í vítateiginn á Virgil. Boltinn kom að Hollendingnum inni í markteignum en hann náði ekki að hitta boltann. Enn sótti Liverpool þremur mínútum seinna. Darwin skallaði til Mohamed Salah sem komst inn í vítateiginn hægra megin. Hann hugðist sneiða boltann framhjá Bart en markmaðurinn sá við honum og varði.
En núna var Liverpool komið í gang. Liðið sótti af krafti og áhorfendur studdu vel við bakið á sínum mönnum. Á 66. mínútu komu Curtis Jones og Luis Díaz inn sem varamenn og þeir létu vel til sín taka. Þremur mínútum seinna var staðan orðin jöfn. Virgil gaf fram á Cody sem var á vinstri kantinum. Hann lék að vítateignum og sendi svo inn í teiginn. Öllum að óvörum endaði boltinn úti í hægra horninu án þess að nokkur snerti boltann. Ótrúlegt mark og það þriðja sem Cody skoraði á fjórum dögum á móti Brighton!
Liverpool gekk á lagið og þremur mínútum seinna sneri Liverpool vörn í sókn. Curtis tók rispu fram völlinn. Við miðjuna skiptist hann á sendingum við Luis. Hann sendi svo fram á Mohamed. Kóngurinn frá Egyptalandi lék framhjá einum mótherja og inn í vítateiginn. Þaðan tók hann miðið og sendi bogaskot upp í vinstra hornið. Allt gekk af göflunum! Leikmenn Liverpool fögnuðu fyrir fram Kop stúkuna. Endurkoman var fullkomnuð!
Það var nóg eftir af leiknum en leikmenn Liverpool höfðu góð tök á öllu. Brighton ógnaði aldrei verulega og Liverpool sigldi þremur stigum örugglega í heimahöfn. Sterkur sigur! Sigurinn kom Liverpool upp í efsta sæti deildarinnar. Ekki var það verra!
Liverpool spilaði illa í fyrri hálfleik. En leikmenn liðsins sneru blaðinu við eftir hlé, töku völdin og unnu sterkan sigur. Stuðningur áhorfenda skipti miklu. Endurkomusigrar eru alltaf sætir og þessi var það sannarlega!
Liverpool: Kelleher, Tsimikas, van Dijk, Konaté (Gomez 46. mín.), Alexander-Arnold, Mac Allister (Jones 66. mín.), Gravenberch, Gakpo, Szoboszlai (Díaz 66. mín.), Salah (Bradley 91. mín.) og Núnez (Endo 77. mín.). Ónotaðir varamenn: Jaros, Quansah, Morton og Robertson.
Mörk Liverpool: Cody Gakpo (69. mín.) og Mohamed Salah (72. mín.).
Gult spjald: Alexis Mac Allister.
Brighton and Hove Albion: Verbruggen, Estupiñán, Julio, van Hecke, Veltman (Gruda 76. mín.), Mitoma (Adingra 87. mín.), Ayari (Wieffer 76. mín.), Hinshelwood (Ferguson 88. mín.), Kadioglu (Moder 87. mín.), Welbeck og Rutter. Ónotaðir varamenn: Steele, Enciso, Lamptey og Baleba.
Mark Brighton: Ferdi Kadioglu (14. mín.).
Gult spjald: Ferdi Kadioglu.
Áhorfendur á Anfield Road: 60.331.
Maður leiksins: Mohamed Salah. Kóngurinn frá Egyptalandi var frábær og tryggði Liverpool sigur. Ekkert nýtt í því!
Arne Slot: ,,Stundum er á brattann að sækja. Þá þarf að snúa bökum saman og berjast. Það gerðum við sannarlega!"
Fróðleikur
- Cody Gakpo skoraði fimmta mark sitt á leiktíðinni. Þrjú af mörkunum hafa komið á móti Brighton.
- Hann skoraði þrjú mörk á fjórum dögum á móti Mávunum.
- Mohamed Salah skoraði í 9. sinn á sparktíðinni.
- Mohamed er nú búinn að skora tíu sinnum á móti Brighton. Enginn leikmaður Liverpool hefur skorað oftar gegn Mávunum í sögu Liverpool.
- Þetta var annar sigur Liverpool á Brighton á fjórum dögum.
- Wataru Endo lék sinn 50. leik með Liverpool. Hann hefur skorað tvö mörk og lagt upp eitt.
-
| Sf. Gutt
Af samningamálum Mohamed Salah -
| Sf. Gutt
Af spjöldum sögunnar! -
| Sf. Gutt
Grannarimmunni frestað! -
| Sf. Gutt
Síðasti grannaslagurinn á Goodison Park! -
| Sf. Gutt
Jafntefli í ótrúlegum leik! -
| Sf. Gutt
Leikjatilfærslur -
| Sf. Gutt
Nýt hverrar mínútu hérna! -
| Sf. Gutt
Darwin tryggði sigur í blálokin! -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Uppskrift að Evrópukvöldi!