| Sf. Gutt

Hvað gerist næst!

Fyrsti leikur eftir upphlaup Mohamed Salah er að baki. Leikurinn gekk að óskum og Liverpool vann Inter Milan 0:1 á San Siro. Egyptinn var skilinn eftir heima þegar Liverpool fór til Ítalíu. En hvað gerist næst?

Arne Slot sagði á blaðamannafundi fyrir leik Liverpool í Mílanó að hann hefði ekki hugmynd um hvort Mohamed Salah muni spila aftur með Liverpool. Að öðru sagði hann ekki mikið um málið nema að ákveðið hefði verið að réttast hefði verið að Egyptinn yrði eftir heima. Næstu skref yrðu ákveðinn eftir leikinn við Inter. Eftir leikinn sagði Arne að hann og Mohamed ættu eftir að tala saman og það myndu þeir gera. 

Leikmenn Liverpool hafa ekki sagt mikið um málið. Andrew Robertson sagði eftir leikinn í gærkvöldi að hann vonaðist til þess að Mohamed myndi spila aftur með Liverpool en hann hefði ekkert um það að segja. Hann sagði þá hafa gengið saman í gegnum þykkt og þunnt frá þeir komu til Liverpool sumarið 2017. Skotinn sagði að Egyptinn hefði óskað félögum sínum góðs gengis áður en þeir fóru til ÍItalíu. Virgil van Dijk var í viðtali eftir leikinn. Hann talaði á svipuðum nótum og Andrew. Hann sagði að málið myndi hafa sinn gang. Hann sagði ekkert hafa breyst eftir ummæli Mohamed. Leikmenn hefðu æft saman og Mohamed hefði æft með liðinu. Leikmenn fóru svo að undirbúa sig fyrir leikinn við Inter.

Nokkrir fyrrum leikmenn Liverpool hafa tjáð sig um málið. Steven Gerrard og Jamie Carragher, svo dæmi sé tekið, hafa sagt að Mohamed hafi hlaupið á sig með sumu af því sem hann sagði. Þá sérstaklega þegar hann sagði að sér hefði verið hent fyrir rútuna og hann gerður að blóraböggli. Allar ásakanir á hendur Arne, þó óbeinar væru, og félaginu séu hið versta mál. Steven sagði að hann skildi vel að Mohamed væri ósáttur með að spila ekki en það gæfi honum ekki leyfi á að segja sumt af því sem hann sagði eftir leikinn við Leeds. Jamie sagði uppþot Mohamed vera hneyksli. Sérstaklega mikilvægt sé að allir séu samhentir þegar á móti blæs eins og hefði gert hjá Liverpool frá því í haust. Bæði Steven og Jamie sögðust vonast til að sættir næðust og Mohamed eigi eftir að spila áfram með Liverpool.  

Spurst hefur út að Mohamed Salah hafi engan áhuga á að fara frá Liverpool. Daniel Sturridge, fyrrum leikmaður Liverpool, sagði eftir leikinn í Mílanó að Mohamed hefði sagt sér að hann elski félagið sitt og vilji vera áfram hjá Liverpool. 

Liverpool hefur öll spil á hendi því Mohamed gerði tveggja ára samning við Liverpool í vor og því þarf ekkert að óttast að Mohamed fari að semja við önnur félög án þess að Liverpool ráði ferðinni. Fari hann frá Liverpool á næstu mánuðum verður það á forsendum Liverpool!

Hvað gerist næst?

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan