| Sf. Gutt

Mohamed skilinn eftir heima í Liverpool!

Mohamed Salah var ekki í liðshópi Liverpool sem fór til Mílanó seinni partinn í dag. Þetta kemur ekki á óvart eftir upphlaup Mohamed á laugardagskvöldið, eftir leik Liverpool í Leeds, þegar hann lýsti óánægju sinni með að hafa verið á varamannabekk Liverpool þrjá leiki í röð. Eftir þau orð sem Mohamed lét falla var í raun ekki annað hægt fyrir Arne Slot, framkvæmdastjóra Liverpool, en að skilja Mohamed eftir heima í Liverpool. Það kemur svo seinna í ljós hvernig framtíð Mohamed hjá Liverpool verður.

Upphlaup Mohamed kemur sér sérlega illa því hann hefði örugglega verið í byrjunarliði Liverpool annað kvöld á móti Inter Milan. Ekki síst vegna þess að Federico Chiesa og Cody Gakpo eru ekki leikfærir. Federico er veikur og Cody varð fyrir meiðslum á móti Leeds og verður frá í næstu leikjum. 

Liðshópur Liverpool sem er kominn til Ítalíu er heldur þunnskipaður. Í liðshópi Liverpool eru þeir Alisson, Gomez, Van Dijk, Konate, Kerkez, Wirtz, Szoboszlai, Isak, Mac Allister, Bradley, Jones, Ekitike, Mamardashvili, Robertson, Woodman, Gravenberch, Nyoni, Ngumoha og Lucky.

Staða Liverpool í Meistaradeildinni er ekki örugg og því er vont að fara til Mílanó án manna sem gætu vel spilað. Fjarvera Mohamed Salah veikir liðið auðvitað. En hann ber sjálfur ábyrgð á því að vera skilinn eftir heima!

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan