| Sf. Gutt

Sætur sigur á San Siro!

Liverpool vann í kvöld sætan sigur á San Siro. Verkefnið var erfitt. En Liverpool spilaði mjög vel og vann 0:1 sigur á Inter Milan.

Það hefur mikið gengið á eftir að flautað var til leiksloka á Elland Road á laugardagskvöldið var. Upphlaup Mohamed Salah varð heimsfrétt. Liðshópur Liverpool hélt til Ítalíu í gær eftir allt uppnámið. Mohamed var skiljanlega skilinn eftir heima en að auki voru Cody Gakpo, Federico Chiesa og Wataru Endo heima vegna meiðsla. Aðeins átta menn voru til skipta og þar af tveir markmenn og þrír unglingar. 

Fljótlega var ljóst að gott yfirbragð var á liði Liverpool. Fyrstu færin í leiknum átti Liverpool eftir rúman stundarfjórðung og þau bæði í sömu sókninni. Yann Sommer varði fyrst frá Curtis Jones og svo frá Ryan Gravenberch. Báðir skutu við vítateiginn. Liverpool komst svo yfir á 32. mínútu þegar Ibrahima Konaté skallaði í mark af stuttu færi eftir horn. Markið var réttilega dæmt af vegna þess að boltinn hafði farið í hendina á Hugo Ekitike. Reyndar var með ólíkindum hvað langan tíma tók að taka ákvörðun með sjónvarpsdómgæslunni.   

Það var ekki fyrr en í viðbótartíma sem Inter ógnaði fyrst. Lautaro Martinez átti þá góðan skalla en Alisson Becker varði vel með því að henda sér niður til vinstri. Markalaust í hálfleik.

Síðari hálfleikur var lengi tíðindalítill. Liverpool spilaði af meiri yfirvegun en um langt skeið og það var ró yfir liðinu. Vörnin var líka traust. Það var ekki lítið því Liverpool var að spila á San Siro þar sem Inter hefur verið með frábæran árangur síðustu mánuði. 

Á 80. mínútu braust varamaðurinn Conor Bradley inn að markteignum. Hann var í frekar þröngri stöðu  þegar hann skaut og Yann varði með því að koma út á móti. Allt stefndi í jafntefli þegar Liverpool fékk víti. Einn varnarmanna Inter togaði í treyjuna hans Florian Wirtz sem hafði átt góða spretti eftir að hann kom inn sem varamaður. Dómarinn dæmdi ekkert en sjónvarpsdómgæslan kom til skjalana. Eftir að hann rýndi í skjáinn fannst honum rétt að dæma víti. Býsna harður dómur en vissulega var togað í treyju Þjóðverjans sem féll við. Dominik Szoboszlai tók vítið og hamraði boltann út til vinstri án þess að Yann ætti nokkra einustu möguleika. 

Það voru tvær mínútur eftir þegar Ungverjinn skoraði. Leikmenn Liverpool vörðust auðveldlega til leiksloka og náðu sætum sigri á einum erfiðasta utivelli í Evrópu. 

Mark Liverpool: Dominik Szoboszlai, víti, (88. mín.).

Maður leiksins: Ibrahima Konaté. Kannski voru einhverjir betri en Frakkinn verður fyrir valinu. Hann hefur verið mjög mistækur á leiktíðinni svo ekki sé meira sagt. En núna var hann eins og klettur í vörninni. 

Áhorfendur á San Siro: 73.892.

Fróðleikur

- Dominik Szoboszlai skoraði fimmta mark sitt á leiktíðinni. 

- Liverpool hefur unnið átta af síðustu tíu útileikjum sínum í Evrópukeppni. 

- Liverpool hefur nú mætt ítölskum liðum níu leiktíðir í röð.

- Þetta var fimmti sigur Liverpool í röð á San Siro. Liverpool er með þrjá sigra á Inter Milan og tvo á AC Milan. 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan