| Sf. Gutt

Af sinnaskiptum!


Fréttin sem birtist hér á Liverpool.is í morgun var í tilefni dagsins sem er 1. apríl. Eru hér með öll beðin að afsaka hugsanleg óþægindi sem hafa hlotist af gabbinu.

Því miður er það ekki svo að fréttin um að Jürgen Klopp hafi haft sinnaskipti sé sannleikanum samkvæmt. Sannarlega vildi ég að hann myndi skipta um skoðun og fréttin hefði verið rétt. Kannski spilaði óskhyggja inn í þegar gabbið var samið. 

Löng hefð er fyrir apríl göbbum á Liverpool.is. Þau hafa verið af ýmsum toga. Reyndar var engin frétt í fyrra en venjulega hafa lesendur Liverpool.is verið gabbaðir. Fréttin 1.apríl 2022 var um James Milner. Hana má lesa hér. Það er jafn löng hefð fyrir afsökunum og útskýringum á gabbfréttunum.  Hér er fréttin um James útskýrð. Það er leitt ef einhverjum sárnar og tekur nærri sér. Þess vegna hef ég, hafi ég varið höfundur, afsakað og skrifað útskýringu eftir hverja svona frétt í gegnum árin. 


Frétt dagsins var til gamans gerð og ekkert illt haft í huga. Hún var fyrst og síðast skrifuð til að viðhalda hefð á Liverpool.is. Mér hefur verið bent á að einhverjum hafi þótt hún hafa farið yfir strikið. Það var ekki ætlunin og afsökun ítrekuð. 

Ég hef lesið þær umsagnir sem skrifaðar voru á Facebook síðu Liverpool klúbbsins og víðar. Verst er að lesa leiðinda ummæli um sjálfan sig þar. Maður sagður ljótur og dónaleg merki látin fylgja. Fleira hefur verið látið fjúka um mig. En hvað um það. Allt hefur sinn gang í þeim efnum sem öðrum. 

Einhver skrifaði, í umsögn að hann hugsaði sér að ganga úr klúbbnum. Vona ég að svo verði ekki. Best er að beina reiðinni að mér en ekki klúbbnum í heild. Ég, fréttaritarinn, ber fulla ábyrgð á þessari frétt eins og þeim þúsundum sem ég hef áður skrifað á Liverpool.is sem er opinber vefsíða Liverpool klúbbsins á Íslandi

Ég er búinn að skrifa fréttir og greinar á vefsíðu Liverpool klúbbsins svo til frá upphafi Liverpool.is. Þar hef ég alltaf reynt að vanda skriftir og sýna fyllstu kurteisi. Eins að bera virðingu fyrir því sem ég hef skrifað um. Aprílgöbbin, sem ég hef skrifað, eru svolítil undantekning en allt hefur verið í gamni gert. Svo var líka nú.

Gleðilega páska!

YNWA!

Sf. Gutt. 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan