| Sf. Gutt

Sorgarfréttir frá Kólumbíu



Þau ótíðindi bárust fyrir hádegi í gær að foreldrum Luis Díaz hefði verið rænt í norðurhluta Kólumbíu daginn áður. Svo blessunarlega fór að móðir hans, Cilenis Marulanda, kom fram á laugardaginn. Luis Manuel Diaz, föður Luis yngri, er enn leitað. Um 120 hermenn og lögregla taka þátt í leitinni sem er að sögn mjög umfangsmikil. 


Luis var auðvitað ekki í leikmannahópi Liverpool í gær þegar Nottingham Forest kom í heimsókn á Anfield Road. Liverpool vann 3:0 eins og allir vita. Diogo Jota fagnaði fyrsta marki leiksins á táknrænan hátt. Svona var því lýst í leikskýrslu Liverpool.is. ,,Portúgalinn hljóp í átt að varamannabekk sínum og fékk treyju merkta LUIS DÍAZ 7. Hann lyfti treyjunni og sýndi áhorfendum bak hennar. Félgar hans fögnuðu svo með honum. Félaga sem á nú erfiðar stundir var sannarlega sýndur stuðningur með þessu!"

Ljóst er að óvissan sem ríkir er fjölskyldu Luis Díaz gríðarlega erfið. Ómögulegt er að segja hvernig allt fer. Það eina sem hægt er að gera er að bíða og vona að allt fari á besta veg. Það eina sem máli skiptir er að Luis eldri komi fram heill á húfi.

Það segir sér sjálft að Luis Díaz spilar ekki með Liverpool á meðan faðir hans er týndur. Þó svo að hann komi fram fljótlega er ekki gott að segja hvenær Luis getur spilað knattspyrnu á nýjan leik. Allt hefur sinn tíma í þeim efnum.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan