| Sf. Gutt

Ryan Gravenberch kominn til Liverpool



Liverpool hefur gengið frá kaupum á hollenska miðjumanninum Ryan Gravenberch frá Bayern Munchen. Hann er fjórði miðjumaðurinn sem Liverpool kaupir núna á síðustu mánuðum. Liverpool borgar 34,3 milljónir sterlingspunda fyrir Ryan. Samningur hans við Liverpool er til fimm ára. 

Ryan fæddist í Amsterdam í Hollandi 16. maí 2002. Hann hóf að æfa með Ajax þegar hann var strákur. Hann þótti á sínum tíma efnilegasti leikmaður félagsins og komst ungur í aðalliðið. Hann var bara 16 ára þegar hann lék sinn fyrsta leik með aðalliði Ajax haustið 2018. Ryan varð þar með yngsti leikmaður félagsins til að spila fyrir hönd félagsins í efstu deild. Stuttu síðar varð hann yngsti leikmaður félagsins til að skora í hollensku bikarkeppninni. 

Ryan varð þrívegis, 2019, 2021 og 2022, hollenskur meistari og vann að auki hollensku bikarkeppnina tvisvar sinnum árin 2019 og 2021. Hann lék 103 leiki fyrir Ajax og skoraði 12 mörk. 

Fyrir einu ári yfirgaf Ryan Ajax og gekk til liðs við Bayern Munchen. Hann spilaði 33 leiki fyrir liðið og skoraði eitt mark. Ryan varð þýskur meistari með Bayern og vann líka Stórbikar Þýskalands. Ryan náði þó ekki að festa sig almennilega í sessi hjá félaginu og forráðamenn Bayern ákváðu að selja hann í sumar.  

Ryan Gravenberch var fyrst valinn í hollenska landsliðið 2021 og er búinn að spila 11 landsleiki. Hann hefur skorað eitt landsliðsmark. Hann var í liði Hollands sem vann Evrópukeppni undir 17 ára árið 2018.

Ryan Gravenberch er nú kominn í hóp fjögurra nýrra miðjumanna Liverpool. Hinir eru þeir Alexis Mac Allister, Dominik Szoboszlai og Wataru Endo. 

Ryan kemur til með að spila í treyju númer 38.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan