| Sf. Gutt

Loksins vann Liverpool Samfélagsskjöldinn!Liverpool vann loksins Samfélagsskjöldinn eftir tvö vítaspyrnutöp á síðustu þremur árum. Liverpool lagði Manchester City að velli 3:1 á King Power leikvanginum í Leicester í 100. Skjaldarleik sögunnar. Þetta var í 16. sinn sem Liverpool vinnur yfirráðarétt yfir Skildinum góða og í fyrsta sinn frá því 2006. Sigur Liverpool var sanngjarn og nú hefur Jürgen Klopp unnið allt sem hægt er að vinna á Englandi!

Bæði lið stilltu upp sterkum liðum og það var greinilegt frá upphafi að þetta var ekki neinn vináttuleikur. Liverpool byrjaði mun betur og snemma í leiknum átti Mohamed Salah skot í hliðarnetið úr góðri stöðu. Eftir tæpan stundarfjórðung sendi Trent Alexander-Arnold fyrir frá hægri yfir til vinstri á Andrew Roberton en hann skallaði í hliðarnetið af stuttu færi. Hann hefði reyndar átt að skalla fyrir markið á félaga sína sem þar voru. 

Liverpool var mun betra liðið í byrjun og það skilaði sér á 21. mínútu. Mohamed fékk boltann úti til vinstri. Hann tók fullkomlega við honum og rúllaði honum svo í veg fyrir Trent Alexander-Arnold sem þrumaði boltanum rétt utan vítateigs í stöngina fjær og inn. Boltinn fór aðeins í höfuð varnarmanns en markið var engu að síður glæsilegt. Af einhverjum orsökum var óskiljanleg töf á staðfestingu marksins. 

Á 34. mínútu fékk Norðmaðurinn Erling Haaland færi en Adrián San Miguel varði vel. Í framhaldinu komst Erling aftur í færi en hann náði ekki almennilegu skoti og hættan leið hjá. Þetta var í fyrsta seinn sem Englandsmeistararnir ógnuðu bikarmeisturnum. City spilaði betur undir lok hálfleiksins en forysta Liverpool í hálfleik var fyllilega sanngjörn. 

City hóf síðari hálfleik eins og þeir enduðu þann fyrri. Strax í upphafi hálfleiksins átti Riyad Mahrez skot en Adrían var vandanum vaxinn og varði. Leikurinn róaðist í kjölfarið. Darwin Nunez skipti við Roberto Firmino á 59. mínútu og fékk hlýjar móttökur frá stuðningsmönnum Liverpool. Úrúgvæinn fékk upplagt færi á 64. mínútu þegar hann slapp í gegn eftir að Jordan Henderson sendi fram á hann en Ederson Moraes markmaður City kom vel út á móti honum og varði með höfðinu. Að Liverpool skyldi ekki skora þarna kom í bakið á 70. mínútu. Phil Foden fékk boltann inn í vítateiginn og náði skoti. Adrían varði en hélt ekki boltanum sem barst til varamannsins Julián Álvarez sem skoraði af stuttu færi. Markið var skoðað lengi af sjónvarpsmönnum og var loks dæmt gott og gilt. Staðan var orðin 1:1. 

Allt virtist geta gerst á lokakaflanum en Liverpool náði aftur forystu á 83. mínútu. Darwin fékk sendingu fyrir og skallaði að marki. Boltinn fór greinilega í hendina á Rubin Dias en samt þurfti dómarinn að skoða málið lengi vel. Hann dæmdi loksins víti sem hann hefði átt að geta gert strax. Mohamed Salah tók vítaspyruna og skoraði með föstu skoti neðst í hægra hornið. Stuðnignsmenn Liverpool fögnuðu vel og sáu nú fram á sigur. 


Sjö mínútum var bætt við enda tók sjónvarpsdómgæslan óratíma. Þegar fjórar mínútur voru komnar fram í viðbótartímann innsiglaði Liverpool sigurinn. Sending kom fyrir frá vinstri. Mohamed sendi inn í vítateiginn á Andrew sem skallaði til baka fyrir markið á Darwin Nunez. Hann skallaði í mark af stuttu færi með með því að henda sér fram. Stuðningsmenn Liverpool trylltust af fögnuði og ekki síst vegna fagnaðarláta leikmanna Liverpool fyrir framan stúkuna þeirra!

Citu fékk dauðafæri til að laga stöðuna á lokaandartökunum. Adrián varði fast skot frá Phil. Erling fékk boltann fyrir opnu marki eftir frákastið en mokaði boltanum í slá og yfir. Stuðningsmenn Liverpool fögnuðu sanngjörnum sigri bikarmeistaranna. Jordan Henderson tók við Samfélagsskildinum og hann er nú búinn að taka við öllum verðlauagripum sem hægt er að vinna á Englandi! 

Liverpool spilaði mjög vel á köflum.Bæði á upphafskaflanm og undir lokin. Margir telja Skjaldarleikinn litlu skipta en það er sannarlega gaman að vinna hann. Það sást vel á leikmönnum og stuðningsmönnum Liverpool sem fögnuðu innilega í leikslok og í góða stund eftir leik. Frábær dagur í Leicester!

Liverpool: Adrián, Alexander-Arnold (Milner 74. mín.), Matip, van Dijk, Robertson, Henderson (Elliott 73. mín.), Fabinho, Thiago (Keïta 85. mín.), Salah (Jones 90. mín.), Firmino (Núñez 59. mín.) og Díaz (Carvalho 90. mín.). Ónotaðir varamenn: Davies, Gomez og Konaté.

Mörk Liverpool: Trent Alexander-Arnold (21. mín.), Mohamed Salah, víti, (83. mín.) og Darwin Nunez (90. mín.). 

Gult spjald: Darwin Nunez.

Manchester City:  Ederson, Walker, Dias, Aké, Cancelo, De Bruyne (Gündogan 73. mín.), Rodri, Silva, Mahrez (Álvarez 58. mín.), Haaland og Grealish (Foden 58. mín.). Ónotaðir varamenn: Phillips, Stones, Moreno, Mbete, Palmer og Wilson-Esbrand.

Mark Manchester City: Julián Álvarez (70. mín.). 

Gult spjald: Rubin Dias.

Áhorfendur á King Power leikvanginum: Ekki uppgefið. 

Maður leiksins: 
Thiago Alcântara. Spænski Brasilíumaðurinn var frábær á miðjunni. Oft á tíðum stjórnaði hann umferðinni eins og honum einum er lagið. 

Jürgen Klopp: Þetta var góður leikur. Við byrjuðum betur en svo náði City undirtökunum um tíma. Sá kafli var okkur erffiður því þá þurftum við að hlaupa mikið. Svo náðum við vopnum okkar, héldum boltanum og þá þurftu leikmenn City að hlaupa mikið. Við náðum svo að klára leikinn með góðum mörkum. Mér fannst leikurinn í heild sinni mjög góður!

Fróðleikur

- Þetta var 100. Skjaldarleikurinn í sögunni. 

- Liverpool lék um Skjöldinn í 24. skipti og vann yfirráðarétt yfir gripnum góða í 16. skipti.

- Þetta var fyrsti Skjaldarsigur Liverpool frá 2006 þegar liðið vann Chelsea 2:1 í Cardiff. 

- Nú eins og þá kom Liverpool til leiks í Skjaldarleik sem FA bikarmeistari.  

- Trent Alexander-Arnold, Mohamed Salah og Darwin Nunez opnuðu markareikninga sína á nýja keppnistímabilinu. 

- Darwin skoraði sitt fyrsta mark fyrir Liverpool í sínum fyrsta leik. 

- Fabio Carvalho lék líka sinn fyrsta leik fyrir Liverpool.

- Jordan Henderson spilaði sinn 450. leik með Liverpool. 

- Allir leikmenn Liverpool unnu Samfélagsskjöldinn í fyrsta sinn. 

- James Milner hafði einn leikmanna Liverpool unnið Skjöldinn áður. Hann vann gripinn með Manchester City árið 2012.

- Jürgen Klopp hefur nú unnið alla þá stórtitla sem hægt er að vinna með ensku liði!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan