| Sf. Gutt

Jordan Henderson kominn í sumarfrí


Jordan Henderson fór af velli þegar tíu mínútur voru eftir af leik Liverpool við Brighton. Hann meiddist á hné og nú er komið í ljós að hann spilar ekki meira á leiktíðinni. 

Jürgen Klopp staðfesti meiðslin á blaðamannafundi í dag. Hann sagði að það væri lán í óláni að Jordan þurfi ekki að fara í aðgerð en hann myndi á hinn bóginn ekki leika í síðustu fjórum leikjum Liverpool á keppnistímabilinu. Meiðslin krefjast sem betur fer ekki aðgerðar en Jürgen sagðist vonast til þess að Jordan verði tilbúinn í slaginn þegar næsta keppnistímabil hefst í haust. Vonandi ganga þær vonir eftir!


Jordan Henderson er búinn að vera frábær á keppnistímabilinu. Sumir telja að hann verði kjörinn Knattspyrnumaður ársins og myndi það ekki koma á óvart. Hann var búinn að spila mjög vel á móti Brighton og skora eitt mark. Jordan er annar leikmaður Liverpool til að meiðast og geta ekki lokið leiktíðinni. Hinn er Joël Matip.

Jordan er algjör lykilmaður og leiðtogi Liverpool innan vallar sem utan. Nú verða aðrir leikmenn að herða sig í síðustu fjórum  leikjunum.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan