| Heimir Eyvindarson

Andy Robertson fyrirliði skoska landsliðsins

Ævintýri Andy Robertson ætla engan endi að taka. Í dag var tilkynnt að hann yrði fyrirliði Skotlands í næstu tveimur landsleikjum a.m.k. Hann er þriðji leikmaður Liverpool til að hljóta þennan heiður.

Alex McLeish þjálfari Skota er ekki í nokkrum vafa um að Robertson sé efni í framtíðar fyrirliða.

,,Ferill hans er ótrúlegur. Hann var að spila áhugamannabolta fyrir fimm árum. Þegar hann kom til Liverpool áttu fáir von á því að hann væri rétti maðurinn fyrir liðið, en hann hefur lagt gríðarlega hart að sér og er nú fastur maður í liðinu. Gott dæmi um skoskan vinnuþjark sem aldrei gefst upp."

,,Ferill hans er ævintýri líkastur og það eru mjög margir sem líta upp til hans. Ég er ekki í vafa um að hann verður frábær fyrirliði."

Robertson lék sinn fyrsta landsleik fyrir Skota árið 2014, gegn Pólverjum. Alls eru landsleikirnir orðnir 22 og mörkin tvö. Sjálfur er hann vitanlega í skýjunum. 

,,Þetta er líklega hápunkturinn á ferlinum hingað til. Ég hlakka gríðarlega til að leiða liðið út á völlinn í komandi leikjum og vonandi mun ég fara fyrir liðinu í stórmótum í nánustu framtíð, það er draumurinn. Ég og fjölskyldan erum í sjöunda himni með þennan mikla heiður sem mér er sýndur."

Robertson er þriðji leikmaður Liverpool sem gerður hefur verið að fyrirliða Skota, hinir tveir eru Graeme Souness og Gary McAllister. 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan