| Heimir Eyvindarson

Ég er klár

Lucas Leiva hefur þurft að gera sér að góðu að sitja á bekknum í undanförnum leikjum, enda hefur Steven Gerrard farið á kostum í „hans stöðu". Brassinn vonast til að fá sjénsinn á morgun.

Lucas Leiva, sem er jafnan talinn einn sterkasti djúpi miðjumaðurinn í Úrvalsdeildinni, hefur ekki átt sjö dagana sæla á þessu ári. Hann meiddist í leik gegn Aston Villa í janúar og var frá í tæpa 2 mánuði. Í fjarveru hans náði Steven Gerrard þvílíkum tökum á hlutverki Brassans á miðjunni að Lucas hefur ekki komist í liðið síðan.

Þessi nýja staða hefur auðvitað valdið Lucas nokkru hugarangri, enda rýrir það möguleika hans á að komast í landslið Brasilíu fyrir HM, að komast ekki í Liverpool liðið. Hugsanlega er þó aðeins að rofa til hjá okkar manni því hann hefur komið nokkuð reglulega inn á sem varamaður í undanförnum leikjum. Það var til að mynda eftir því tekið hversu vel hann stóð sig þegar hann kom inn á gegn West Ham í þar síðasta leik. Þar sem hann spilaði framar en hann á að venjast. Hann gæti fengið sjénsinn á morgun, þar sem Jordan Henderson verður í leikbanni. Lucas segist tilbúinn í hvað sem er, ef kallið kemur.
„Ég hef lagt hart að mér og ég er klár í leikinn, ef stjórinn vill nota mig. Mér fannst ég nota tækifærið vel á móti West ham og vonandi tekst mér eins vel upp á morgun ef ég kemst í liðið", segir Lucas í samtali við Liverpoolfc.com.

„Það er erfitt að sitja á bekknum helgi eftir helgi. Ég legg mig alltaf allan fram og vil alltaf spila, en stundum verður maður að gera sér að góðu að sitja á bekknum. Þá er gott að hafa góða liðsfélaga, eins og Stevie (Gerrard) sem peppa mann upp og hrósa manni. Hann veit hversu erfitt mér finnst að sitja á hliðarlínunni."

„Ég mun leggja mig extra mikið fram til þess að láta draum Stevie um að lyfta Englandsmeistaratitlinum rætast. Við viljum auðvitað allir vinna deildina, en ég veit hvað það hefði ofboðslega mikla þýðingu fyrir Stevie. Hann á það svo sannarlega skilið og við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að sá draumur rætist."

„Það hefur gengið á ýmsu þessi 7 ár sem ég hef verið hérna. Líklega er nýafstaðið tímabil undanfarinna 2-3 ára það versta sem klúbburinn hefur gengið í gegnum mjög lengi, en við höfum alltaf haft trú á því að við gætum gert betur. Núna þegar okkur gengur betur þá er þessvegna ekki langt í sjálfstraustið. Það fór aldrei langt. Við höfum mikla trú á því sem við erum að gera."

„Þrátt fyrir að liðinu gangi vel þá hafa þetta verið erfiðir tímar fyrir mig. Ég hef verið óheppinn með meiðsli og eftir að Stevie náði svona góðum tökum á því að spila aftast á miðjunni þá spila ég nánast ekki neitt. Sú var tíðin að ég spilaði næstum alla leiki. Það hefur breyst og það er erfitt að sætta sig við það."

„En ég verð að vera jákvæður. Ekki bara mín vegna, heldur vegna liðsins. Maður reynir að hjálpa til eins vel og maður getur, þrátt fyrir að maður sé ekki inni á vellinum. Þegar allt kemur til alls þá er það öll leiktíðin sem telur og þótt við séum á mjög góðu skriði núna þá má ekki gleyma því að við stóðum okkur líka vel fyrir áramót. Annars værum við ekki í þessari stöðu í dag."

„Allir í hópnum hafa hlutverki að gegna. Jafnvel þótt þeir séu ekki alltaf í liðinu. Ég verð að einbeita mér að því að standa mig vel í öllu því sem ætlast er til af mér. Þannig hjálpa ég liðinu. Ef stjórinn óskar eftir þjónustu minni á morgun, þá verð ég klár. Það er mitt hlutverk."


 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan