| Heimir Eyvindarson

Enn af Christian Poulsen

Umboðsmaður Christian Poulsen segir að allt útlit sé fyrir að hinn 30 ára danski landsliðsmaður verði orðinn leikmaður Liverpool um eða eftir helgina.

Jørn Bonnesen, umboðsmaður Poulsen trjáir sig um hugsanleg vistaskipti skjólstæðings síns í viðtali við danska Extra Blaðið. Í viðtalinu fullyrðir Bonnesen að viðræður milli Juventus og Liverpool séu vel á veg komnar og þess sé ekki lengi að bíða að Poulsen klæðist búningi Liverpool.

,,Ég hef rætt við forráðamenn Liverpool. Þar á meðal Roy Hodgson", segir Bonnesen. Ég reikna ekki með að samningaviðræðurnar taki langan tíma. Ef Juventus og Liverpool komast að samkomulagi þá er Christian klár. Hann gæti jafnvel verið orðinn leikmaður Liverpool strax um helgina."

Christian Poulsen þykir mikið hörkutól á leikvellinum. Margir muna eflaust eftir uppákomu sem varð í landsleik Dana og Svía í undankeppni EM 2008, en þá kýldi Poulsen Svíann Markus Rosenberg í magann og fékk að launum rautt spjald og þar að auki fengu Danir dæmt á sig víti fyrir uppátækið. Það varð allt vitlaust á vellinum og æstur stuðningsmaður danska liðsins æddi inn á völlinn til að sýna dómara leiksins í tvo heimana. Allt þetta fár varð til þess að Svíum var dæmdur 3-0 sigur í leiknum.

En þrátt fyrir að skapið hlaupi stundum með Poulsen í gönur er ljóst að hann er afar sterkur miðvallarleikmaður. Roy Hodgson þekkir vel til Poulsen, sem var í herbúðum FC København þegar Roy var þar við stjórnvölinn. Poulsen blómstraði undir stjórn Hodgson og frammistaða hans varð til þess að erlend stórlið báru víurnar í hann. Þýska liðið Schalke keypti kappann frá FC København og þaðan lá leið Danans til Sevilla á Spáni. Árið 2008 kom hann síðan til Juventus á Ítalíu. Poulsen er fastamaður í danska landsliðinu. Hann hefur leikið 77 landsleiki og skorað í þeim 6 mörk.

Fari svo að Javier Mascherano fari til Inter, eins og lengi hefur legið í loftinu, má gera ráð fyrir því að Hodgson sjái Poulsen fyrir sér sem arftaka hans. Talið er að Inter þurfi að reiða fram yfir 20 milljónir punda fyrir Mascherano, en kaupverð Poulsen er talið verða rúmar 4 milljónir punda.

,,Hodgson veit hvers Poulsen er megnugur og hann sér hann fyrir sér sem akkeri á miðjunni hjá Liverpool. Hvort hann líti á hann sem arftaka Mascherano get ég ekkert sagt um. Það er ekki mitt að tjá mig um svoleiðis lagað", segir Bonnesen.

,,Hodgson hefur sjálfur lýst því yfir að hann vilji fá Poulsen og það er mjög ánægjulegt. Það var í rauninni mjög ánægjulegt að heimsækja Liverpool. Mér fannst ríkja mjög góður andi hjá félaginu. Það er eins og Hodgson hafi gefið félaginu nýja von. Mér fannst virkilega eins og ég væri að heimsækja alvöru stórklúbb. Það yrði heiður fyrir Christian að starfa í þessu umhverfi."








TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan