Jafnt gegn Skyttunum
Englandsmeistarar Liverpool gerðu í dag 2:2 jafntefli við Skytturnar í næst síðasta heimaleiknum á leiktíðinni. Nú eru tveir leikir eftir en titillinn er í höfn fyrir hálfum mánuði!
Stuðningsmenn Liverpool tóku vel á móti meisturunum sínum og stemmningin á Anfield Road var frábær í sólinni. Leikmenn Arsenal stóðu heiðursvörð fyrir meisturunum fyrir leikinn!
Arsenal fékk fyrsta færið strax á 4. mínútu. Aukaspyrna var send inn í vítateiginn frá vinstri. Leikmenn Liverpool ætluðu að leika rangstöðu en það mistókst. Bukayo Saka laumaði sér framhjá rangstöðugildrunni og fékk boltann hægra megin. Sem betur fer hitti hann boltann ekki vel og boltinn fór framhjá fjærstönginni. Fjórum mínútum seinna lagði Mohamed Salah upp færi fyrir Luis Díaz en David Raya varði vel.
Liverpool tók nú öll völd og lék mjög vel í framhaldinu. Á 20. mínútu átti Andrew Robertson fullkomna fyrirgjöf á Cody Gakpo sem skallaði af öryggi í markið af stuttu færi. Stuðningsmenn voru enn að fagna þegar Liverpool náði frábærri sókn. Eldsnögg sókn fram hægra megin endaði með því að Dominik Szoboszlai renndi boltanum fyrir markið og þar var Luis mættur til að binda endi í sóknina. Magnaður leikkafli og það voru aðeins 87 sekúndur á milli markanna!
En liðu nokkur andartök. Curtis Jones fékk boltann í vítateignum. Hann snéri sér snöggt við og náði föstu skoti en David varði stórvel. Liverpool hafði öll völd fram á leikhléi. Liðið átti góðar sóknir en ekki komu fleiri mörk.
Leikmenn Liverpool voru sannarlega vel vakandi í fyrri hálfleik en þeir sváfu á verðinu í byrjun síðari hálfleiks. Á 47. mínútu gaf Leandro Trossard fyrir frá vinstri. Hann hitti beint á höfuðið á Gabriel Martinelli sem skallaði boltann neðst út í hægra hornið. Arsenal náði nú mjög góðum leikkafla.
Á 66. mínútu komu þrír varamenn Liverpool til leiks. Alexis Mac Allister, Darwin Núnez og Trent Alexander-Arnold leystu þá Cody, Curtis og Conor Bradley af hólmi. Ekkert fór milli mála að margir stuðningsmenn Liverpool bauluðu á Trent. Margir fögnuðu honum en við þetta dró úr stemmningunni hjá stuðningsmönnum Liverpool. Stuðningsmennirnir höfðu greinilega skipst í tvær fylkingar við innkomu Trent sem hafði á mánudaginn tilkynnt um brottför sína.
Arsenal hélt áfram að spila vel og á 70. mínútu jöfnuðu þeir metin. Martin Ødegaard átti þá bylmingsskot við vítateiginn sem Alisson Becker varði meistaralega í stöng. Boltinn hrökk út og Mikel Merino var á vaktinni í markteignum og skallaði í markið. Markið var grandskoðað í sjónvarpinu og loks dæmt löglegt þar sem Trent hafði leikið Mikel réttstæðan. Allt í einu var staðan orðin jöfn og leikmenn Liverpool slegnir út af laginu.
Níu mínútum seinna hljóp á snærið hjá Liverpool. Mikel fékk þá sitt annað gula spjald fyrir brot og í kjölfarið rautt. Liverpool gekk á lagið og fór að sækja á nýjan leik.
Mínútu fyrir leikslok gaf Mohamed fyrir frá hægri. Andrew varð fyrstur að boltanum en stýrði honum framhjá af stuttu færi. Arsenal náði sinni fyrstu sókn í langan tíma þegar fimm mínútur voru liðnar af viðbótartímanum. Martin braust fram og skaut við vítateiginn en sem betur fer fór boltinn rétt framhjá. Mínútu seinna náði Virgil van Dijk föstum skalla eftir horn frá Alexis. David varði vel en Andrew náði frákastinu og skoraði. Fögnuðurinn varði stutt því markið var dæmt af vegna leikbrots Ibrahima Konaté. Atvikið var skoðað og markið endanlega dæmt af. Leiknum lauk þar með jafntefli sem voru sanngjörn úrslit þegar allt var tekið.
Fyrir nokkrum vikum var litið til þessa leiks sem leiks sem gæti skorið úr um hvort Liverpool eða Arsenal yrði Englandsmeistari. Ekki aldeilis. Liverpool hafði verið Englandsmeistari í hálfan mánuð þegar liðin gengu til leiks. Það eitt sýnir hversu mikla yfirburði Liverpool hefur haft í deildinni á þessu keppnistímabili!
Mörk Liverpool: Cody Gakpo (20. mín.) og Luis Díaz (21. mín.).
Gult spjald: Conor Bradley,
Mörk Arsenal: Gabriel Martinelli (47. mín.) og Mikel Merino (70. mín.)
Gul spjöld: Mikel Merino og Myles Lewis-Skelly.
Rautt spjald: Mikel Merino.
Áhorfendur á Anfield Road: 60.324.
Maður leiksins: Luis Díaz. Kólumbíumaðurinn var mjög sprækur, skoraði og var mjög ógnandi.
Arne Slot: ,,Ég held að það megi segja að leikurinn hafi sýnt af hverju Úrvalsdeildin er svona vinsæl. Tvö frábær lið tókust á og sýndu stórgóða knattspyrnu."
Fróðleikur
- Cody Gakpo skoraði 18. mark sitt á leiktíðinni.
- Hann skoraði tíunda leikinn í röð á heimavelli þegar hann hefur verið valinn í byrjunarliðið.
- Luis Díaz er með einu marki færra en Cody.
- Þetta var þriðja jafntefli Liverpool og Arsenal í röð í deildinni á Anfield.
- Þetta var í fyrsta skipti í sögunni sem liðin gera þrjú jafntefli í röð í deildarleikjum á Anfield.
-
| Sf. Gutt
Skjaldarleikurinn liggur fyrir! -
| Sf. Gutt
Conor Bradley með nýjan samning -
| Sf. Gutt
Af leikmannamálum -
| Sf. Gutt
Suður í sólina! -
| Sf. Gutt
Að baula eða ekki baula? -
| Sf. Gutt
Vil vera sem lengst! -
| Sf. Gutt
Heimsmeistarinn valinn bestur! -
| Sf. Gutt
Þarf að breyta til! -
| Sf. Gutt
Búið að dagsetja sigurförina! -
| Sf. Gutt
Leikjatilfærslur