Mohamed Salah

Fæðingardagur:
15. júní 1992
Fæðingarstaður:
Basyoun Egyptalandi
Fyrri félög:
El Mokawloon, Basel, Chelsea, Fiorentina (lán), Roma
Kaupverð:
£ 39000000
Byrjaði / keyptur:
22. júní 2017

Salah er fæddur í borginni Basyoun sem er 100 km norður af höfuðborginni Kairo.  Knattspyrnuferill hans hófst í Nasr City hverfinu í höfuðborginni.

Hann sýndi snemma að í honum bjuggu hæfileikar til að verða góður knattspyrnumaður og ferillinn hófst fyrir alvöru í heimalandinu með unglingaliðum El Mokawloon SC og spilaði hann í fyrsta sinn með aðalliði félagsins aðeins 17 ára að aldri tímabilið 2009-2010 og spilaði alls fimm leiki það tímabilið.

Tímabilið þar á eftir spilaði hann reglulega með aðalliðinu og skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið í 1-1 jafntefli gegn verðandi meisturum Al-Ahly í desember.  Tímabilið 2011-2012 var hann orðinn lykilmaður í liðinu og í september 2011 spilaði hann sinn fyrsta landsleik gegn Sierra Leone í 2-1 tapi.  Eftir að hafa spilað alla leiki liðsins var öllum deildarleikjum í Egyptalandi svo frestað það sem eftir lifði tímabils vegna slyss sem átti sér stað á Port Stadium leikvanginum.

U-23 ára landsliði Egyptalands var svo boðið að spila vináttuleik við svissneska liðið Basel í mars 2012.  Basel hafði þá þegar hafið viðræður um kaup á Salah og sannfærðust þá fullkomlega þegar Salah kom inná sem varamaður í seinni hálfleik og skoraði tvö mörk.

Salah var fljótur að aðlagast lífinu í Sviss og var mikilvægur hlekkur í liðinu sem vann svissnesku deildina og komust í undanúrslit í Evrópudeildinni en þar skoraði Salah bæði gegn Tottenham og Chelsea.  Tímabilið þar á eftir hélt hann uppteknum hætti og skoraði meðal annars í sigri á Chelsea undir stjórn Jose Mourinho í riðlakeppni Meistaradeildarinnar en sá sigur kom mörgum á óvart.

Í janúar 2014 var hann svo keyptur til Chelsea en það er saga sem margir Liverpool menn þekkja vel en félagið var í samningaviðræðum við Basel en vildi ekki borga uppsett verð og Chelsea stukku til og fengu hann til liðs við sig.  Hann spilaði þó ekki mjög mikið með Lundúnaliðinu það sem eftir lifði tímabils, hann byrjaði einungis sex leiki í deildinni og þegar tímabilið 2014-2015 hófst var einnig ljóst að tækifæri hans voru af skornum skammti.

Hann var því lánaður til ítalska liðsins Fiorentina þar sem hann fékk mörg tækifæri og stóð sig mjög vel.  Hann spilaði alls 16 leiki og skoraði 6 mörk og önnur lið sýndu honum áhuga sumarið eftir.  Það fór þannig að hann var lánaður aftur til Ítalíu en nú til Roma þar sem hann gjörsamlega sló í gegn, spilaði alls 34 leiki og skoraði 14 mörk.  Félagið festi því kaup á honum sumarið 2016.  Salah hélt uppteknum hætti hjá Roma og spilaði alls 41 leik og skoraði 19 mörk auk þess sem hann lagði upp fjölda marka fyrir samherja sína.

Sumarið 2017 var ljóst að Jürgen Klopp hafði mikinn áhuga á að fá Salah til liðs við Liverpool og þann 22. júní skrifaði hann undir samning við og varð þar með dýrasti leikmaður í sögu félagsins.

Salah býr yfir gríðarlega miklum hraða og það verður spennandi að fylgjast með honum í ensku Úrvalsdeildinni á komandi tímabili.

Tölfræðin fyrir Mohamed Salah

Tímabil Deild Bikar Deildarbikar Evrópa Annað Alls
2017/2018 36 - 32 1 - 1 0 - 0 15 - 11 0 - 0 52 - 44
2018/2019 38 - 22 1 - 0 1 - 0 12 - 5 0 - 0 52 - 27
2019/2020 34 - 19 2 - 0 0 - 0 8 - 4 4 - 0 48 - 23
2020/2021 37 - 22 2 - 3 1 - 0 10 - 6 1 - 0 51 - 31
2021/2022 35 - 23 2 - 0 1 - 0 13 - 8 0 - 0 51 - 31
2022/2023 37 - 19 3 - 1 1 - 1 8 - 8 1 - 1 50 - 30
2023/2024 22 - 15 1 - 1 2 - 1 7 - 4 0 - 0 32 - 21
Samtals 239 - 152 12 - 6 6 - 2 73 - 46 6 - 1 336 - 207

Fréttir, greinar og annað um Mohamed Salah

Fréttir

Í nærmynd

Skoða önnur tímabil