| Sf. Gutt

Missir Jerzy Dudek af kveðjuleiknum?

Jerzy Dudek kveður Anfield Road á morgun þegar Liverpool leikur gegn Charlton. Það gæti þó farið svo að Pólverjinn geti ekki spilað vegna meiðsla. Jerzy hefur verið meiddur undanfarið. Hann gat til dæmis ekki verið í liðinu þegar Liverpool lék gegn Fulham um síðustu helgi. Daniele Padelli var þá á varamannabekknum eins og gegn Portsmouth. Jose Reina mun ekki leika á morgun þar sem hann tekur það rólega eftir að hafa orðið fyrir lítilsháttar meiðslum gegn Fulham. Það gæti því verið að nýr markvörður spili sinn fyrsta leik með Liverpool á morgun.

Rafael Benítez hafði þetta að segja um markmenn sína. "Jerzy Dudek er vondur í nára. Hann var leikfær en fann fyrir eymslum fyrir tveimur dögum. Hann hefur verið skoðaður í ómsjá. Það verður erfitt fyrir hann að ná því að vera leikfær fyrir sunnudaginn. Pepe verður leikfær fyrir úrslitaleikinn og ég held að Jerzy verði það líka. Hvorug meiðslin eru mjög alvarleg en þau koma á slæmum tíma. Það lítur út fyrir að Daniele Padelli og David Roberts verði markverðirnir um helgina."

Sem fyrr segir gæti nýr markvörður staðið í marki Liverpool gegn Charlton. Verði Daniele Padelli fyrir valinu verður hann fyrsti Ítalinn til að spila með Liverpool. Unglingabikarmeistarinn David Roberts yrði fyrsti heimaaldi markvörðurinn til að spila með aðalliðinu í langan tíma ef hann yrði valinn til að spila. Þetta kemur allt í ljós á morgun.

Þó svo að Jerzy nái ekki að spila á morgun er ljóst að hann verður kvaddur með virktum á Anfield Road. Hann varð að goðsögn á Ataturk leikvanginum þegar frábærar markvörslur hans lögðu grunninn að fimmta Evrópubikarsigri Liverpool. Fyrir ótrúlega frammgögnu sína gegn AC Milan mun Pólverjinn alltaf vera hafður í hávegum hjá stuðningsmönnum Liverpool!

 

 



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan