| Grétar Magnússon

West Ham jafn mikilvægur leikur og Chelsea

Rafael Benítez segir að leikurinn gegn West Ham sé jafn mikilvægur og gegn Chelsea.  Liverpoolmenn heimsækja Upton Park á þriðjudaginn.

Benítez sagði:  ,,Það þýðir lítið að vinna Chelsea og tapa svo á móti West Ham."

Eftir sigurinn á Chelsea munar aðeins 5 stigum á liðunum og tækifæri gefst til þess að minnka bilið enn meir með sigri á West Ham.  Benítez var auðvitað hæstánægður með sigurinn á ensku meisturunum en varar leikmenn sína við því að þeir gætu fengið harkalega lendingu í Lundúnum.

,,Leikmenn og stuðningsmenn nutu sigursins á Chelsea," sagði stjórinn.  ,,Leikurinn var góður, við sýndum karakter og gæði og ég var mjög ánægður."

,,Það er alltaf gott að vinna toppliðin en þegar upp er staðið eru þetta aðeins 3 stig.  Við höfðum mikið sjálfstraust fyrir leikinn vegna þess að við vorum að vinna leiki og gera rétta hluti.  Eftir sigurinn er sjálfstraustið enn meira."

,,Eins og venjulega hugsum við bara um einn leik í einu.  Það þýðir ekki að vinna Chelsea og tapa svo fyrir West Ham því þá er staðan orðin eins og áður.  Þessi leikur er jafn mikilvægur.  Við verðum að vinna og hugsa ekki um annað.  Leikmennirnir skilja það að þessi þrjú stig eru alveg eins mikilvæg og það þýðir að við erum á réttri leið."

,,Ég vona að þetta frí um helgina hjálpi okkur.  Andrúmsloftið innan leikmannahópsins er mjög gott og skuldbindingin sem þeir sýna á æfingum er frábær."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan