| Júlíus Finnbogason

Mark Gonzalez í viðtali

Í þessu viðtali á liverpoolfc.tv útskýrir Gonzalez hvers vegna enska úrvalsdeildin sé sterkari en sú spænska, einnig segir hann frá því hvers vegna Carragher öfundar hann vegna hársins. [Athugið að viðtalið var tekið áður en hann skoraði markið glæsilega gegn Fulham.]

Hversu svekkjandi var það að lenda í meiðslum þegar þú varst að byrja að spila reglulega?

Mjög svekkjandi. Ég sagði að besta leiðin til að venjast leikstílnum væri ef maður spilaði nokkra leiki í röð. Ég held að ég hafi verið að spila mjög vel gegn PSV þannig að það var svekkjandi að fara að velli.

Stuttu fyrir meiðslin baðstu Liverpool aðdáendur að vera þolinmóða gagnvart þér og að þú þyrftir aðlögunartíma í nýju landi.
Hefur þér fundist þú vera undir mikilli pressu síðan að þú komst á Anfield?

Eiginlega ekki pressu. Þú ert meðvitaður um það þegar fólk fer að tala um hluti en það ætti ekki að setja pressu á mann. Þetta er fyrsta tímabilið mitt á Englandi og fótboltinn hér er allt öðruvísi en annars staðar. Þegar ég bað fólk um að sýna mér þolinmæði var það ekki útaf pressu heldur vegna þess að ég þarf aðlögunartíma.

Er pressan meiri hjá Liverpool en hún var þar sem þú varst áður?

Já, að sjálfsögðu. Þetta er stór klúbbur. En ég veit að um leið og mér tekst að aðlagast og koma mér fyrir hérna þá verð ég mikilvægur fyrir liðið.

Hvenær megum við þá búast við því að sjá það besta frá Mark Gonzalez?

Vonandi fljótlega en ég get ekki sagt á morgun eða innan fárra mánaða. Maður veit aldrei. Það tekur tíma að koma sér inn í ýmislegt.

Þú ert búinn að vera hérna í nokkra mánuði. Hvaða leikmaður hefur hjálpað þér mest að koma þér fyrir?

Það er enginn einn. Þetta er eins og stór fjölskylda hérna. Allir starfsmenn og jafnvel aðdáendur láta manni líða vel og þetta er bara eins og að vera kominn heim. Um leið og ég kom hingað fannst mér ég strax vera hluti af liðinu. Ég hef spurt leikmenn hvar sé gott og rólegt hverfi enda fer ég ekki mikið út og vill heldur vera heima í rúmi og sofa.

Nú fær Pennant far með þér á æfingar, hver stjórnar útvarpinu á leiðinni?

Ég, en ég sagði að hann mætti koma með geisladiska en hann hefur ekki gert það. Ég hlusta á danstónlist og ekkert of þungt rokk. Hann hlustar á R´n´B, þannig tónlistarsmekkur.

Borgar hann þér bensínpening?

(Hlær) Nei!

Í öllum liðum er hávær týpa og hljóðlát týpa. Hverjir finnst þér það vera?

Ég er ekki hljóðlát persóna. Mér finnst gaman að grínast og hlæja. Þegar þú ert í vinnunni þá ertu í vinnunni en utan vallar finnst mér gaman að grínast. Kannski er ég háværari við þá sem ég þekki best. Kannski þekki ég ekki alla nógu vel þannig að ég er ennþá svolítið feiminn vegna þess að mig skortir sjálfstraust.

Hjálpar það að hafa aðra leikmenn frá Suður-Ameríku hérna?

Það er ekki þannig. Við höngum ekki bara saman, ekkert frekar en Spánverjarnir. Að koma sér fyrir hjá nýju liði snýst um manneskjuna sjálfa. Ég er í ágætis málum enda kann ég ensku.

Ég hef slæmar fréttir, því miður. Carragher hefur gert uppgjör fyrir árið 2006 sem mun birtast á vefsíðunni fyrir jól. Því miður telur hann þig vera með verstu hárgreiðsluna. Hvað finnst þér um það?

Ég virði hans skoðun en ég held að hann sé bara öfundssjúkur. Mér er alveg sama hvað fólk segir. Mér finnst gaman að breyta um hárstíl á nokkra mánaða fresti.

Færðu einhvern tímann heimþrá?

Kannski í byrjun. En ég var 13 ára þegar ég yfirgaf heimilið mitt til að leika í höfuðborg Chile þannig að ég er vanur því að vera að heiman. Ég fór til Spánar þegar ég var 19 ára. Það var aðeins flóknara en þú verður bara að hugsa um að þú ert að gera það sem þér finnst virkilega gaman. Ég er fullorðinn núna þannig að ég ætti ekki að vera með heimþrá.

Hafa foreldrar þínir komið hingað?

Mamma og bróðir minn hafa verið hér. Þau koma aftur um jólin með pabba, ömmu og bræðrum mínum, sem er frábært. Þetta verða fyrstu jólin mín utan Chile enda er yfirleitt 10 daga frí í öðrum löndum yfir hátíðarnar.

Ætlið þið að hafa kalkún?

Borðið þið kalkún á Englandi?

Já!

Mamma mun finna eitthvað útúr þessu.

Pabbi þinn var knattspyrnumaður, var það ekki?

Já en ég sá hann aldrei spila. Hann hætti 1983 og ég fæddist ári síðar. Hann lék fyrir einhver lið í Chile og Suður-Afríku sem og með landsliðinu. Hann var hægri bakvörður.

Ert þú betri en hann var?

Ég veit nú ekkert um það en ég gæti sagt að ég hafi afrekað meira.
 
Þú ert hættur að leika fyrir Chile - muntu einhvern tíma aftur keppa fyrir landsliðið?

Já. En ég hef ekki sagt að ég vilji spila þessa stundina. Ég þarf að leysa úr ýmsum málum við þjálfarann og nokkra aðra frá landsliðinu, þetta er allt mjög flókið. Ég hætti að spila fyrir landsliðið vegna persónulegra vandamála við þjálfarana. Ef ég spila aftur með landsliðinu þá verður það fyrir fjölskylduna mína og mig sjálfan, engan annan.

Hvers vegna komstu til Evrópu í stað þess að spila með stórum félagsliðum í Suður-Ameríku?

Af því að það er enginn framtíð í Suður-Ameríku. Kannski í Boca Juniors eða River Plate eða einhverjum brasilískum klúbb, það er allt og sumt. Í Evrópu eru meiri möguleikar á því að spila í stórum mótum og það eru fleiri að fylgjast með.

Við viljum meina að enska úrvalsdeildin sé sú besta í heimi. Þú hefur leikið hér og á Spáni, hvor er betri?

Þetta eru tvær mismunandi deildir en ég vel England og ekki útaf því að ég er hérna núna heldur útaf af því að hér er meiri harka og boltinn er hraðari. Mér líkar vel við hraðan bolta. Það eru góðir leikmenn á Spáni en miklu hægari bolti.

Er mikill munur á áhorfendum?

Fólkið hérna lifir miklu meira fyrir fótbolta en annars staðar. Þeir eru háværari og þú sérð yfirleitt ekki tóm sæti á leikjum, jafnvel þegar liðið er að tapa. Stundum gerðist það á Spáni að þegar liðið vann ekki í nokkrum leikjum í röð að þá hættu áhorfendur bara að mæta. Í Chile er það ennþá verra. Það sem ég er að upplifa hér er algjör draumur.

Varstu reiður yfir því hvað það tók langan tíma að fá atvinnuleyfi til að koma til Liverpool?

Já. Við bjuggumst aldrei við vandamálum með leyfið. Síðan neituðu þeir að gefa mér leyfi því Chile var ekki í topp 70 af landsliðunum í heiminum. Þetta var mjög langt ár að bíða en ég vissi að Rafa var áhugasamur og það gladdi mig. Ég hugsaði alltaf að á endanum mun ég spila fyrir Liverpool og loksins er ég hérna.

Var Rafa í sambandi við þig á meðan þú varst að bíða?

Já. Hann hringdi í mig eftir aðgerð. Hann spurði hvernig ég hefði það og hvernig ég væri stemmdur. Ég var ekkert vel stemmdur á þessum tímapunkti af því að ég var meiddur en hann hjálpaði mér með það.

Nú að lífinu utan vallar, ertu búinn að kaupa þér íbúð?

Já. Ég fann einhverja íbúð og flyt á næstu 10 dögum. Þetta er rétt hjá Luis, Bolo og Pepe.

Býrðu einn?

Nei, eldri frændi minn er hérna.

Lítur hann eftir þér, eldar matinn og fleira?

Já! Hann er mjög góður kokkur.

Hvað eldar hann?

Mat frá Chile. Það er svipað og spænskur matur. Mér líkar ekki vel við enskan mat.

Hvað gerir þú í frítímanum?

Spila PSP. Ég ætla að kaupa Medal of Honour en það er stríðsleikur. Sumir strákana eiga hann nú þegar þannig að við ætlum allir að hittast og spila. Mér líkar ekki við að spila fótboltaleiki, ég kýs frekar ævintýraleiki. Mér finnst gaman í leikjum þar sem þú þarft að hugsa.

Spilarðu einhverjar aðrar íþróttir?

Já, ég spila tennis. Ég er ekki mjög góður. Ég spilaði gegn Victor Salinas, einn af sjúkraþjálfurunum þegar undirbúningstímabilið var en ég segi þér ekki lokatölur. Mér finnst einnig gaman að veiða en ég veit ekkert hvert á að fara hérna í Liverpool. Ég held að engum hinna finnist gaman að veiða sem er mjög skrýtið. Ég hef alltaf haft gaman af því að veiða með pabba mínum og bræðrum.

Við biðjum alltaf leikmenn að velja sér fimm manna lið. Hvað er þitt lið?

Ég mundi velja Pepe, Carra, Stevie. Get ég sagt mig sjálfan?

Þetta er þitt lið, Mark.

Okey, ég. Síðan framherji, annaðhvort Robbie eða Crouchy. Ég vel Robbie.

Þú segir að þú sért fljótasti spilari Liverpool en hefurðu prófað að keppa við Paul Anderson? Hann er mjög fljótur.

Hann er fljótur en ég held að ég myndi vinna hann. Kannski keppum við einhvern daginn og sjáum hvor hefur betur.
 
Er einhver af Liverpool leikmönnunum sem þú mundir ekki vilja lenda í tæklingu við?

Ég mundi segja Xabi, kannski Carra líka.

Ertu með einhverja hjátrú?

Ekki hjátrú. En ég segi alltaf "Vamostata" þegar flautað er til leiks, bæði í byrjun og í byrjun seinni hálfleiks. Það þýðir: koma svo, langafi. Hann er þarna uppi núna en hann er eins og engillinn minn.

Að lokum, hver er aðal metnaður þinn í fótbolta?

Ég hef engan sérstakan metnað. Kannski eftir að maður horfði á Meistaradeildarsigurinn árið 2005 þá myndi vera draumur að spila til úrslita í þeirri keppni.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan