| Sf. Gutt

Fyrirliðinn færði sigur

Fyrirliðinn færði Liverpool góðan sigur í dag með eina marki leiksins gegn Manchester City á Anfield Road. Þetta var fyrsta deildarmark hans á leiktíðinni og kom á besta tíma. Leikurinn var tilþrifalítill en stigin þrjú voru fyrir öllu í þetta skiptið. Rafael Benítez kom á óvart með leikaðferð sinni en hann lét spila með þrjá menn í öftustu vörn fram í síðari hálfleik.

Liverpool náði fljótlega betri tökum á leiknum en leikmenn Manchester City sýndu það frá upphafi að liðið ætlaði ekki að gefa neitt. Peter Crouch fékk fyrsta færi leiksins, eftir undirbúning Dirk Kuyt, en hann skaut yfir úr upplögðu færi á teignum. Peter var mjög vel staðsettur en hann virtist ætla að vippa yfir Nicky Weaver í marki City en það mistókst algerlega. Á 18. mínútu átti Steven Gerrard bylmingsskot rétt framhjá. Nokkrum mínútum seinna fengu gestirnir sitt fyrsta færi en Ítalinn Bernardo Corradi skaut framhjá utan úr teignum. Eftir rúmlega hálftíma kom besta færi hálfleiksins. Sami Hyypia sendi langa sendingu fram völlinn. Luis Garica tók frábærlega við boltanum og lék snilldarlega á varnarmann og komst einn á móti markverði City utarlega á markteignum. Skotið hjá Spánverjanum var hins vegar alveg misheppnað og fór í hliðarnetið. Færið var þröngt en Luis átti sannarlega að skora. Eins beið Peter svo til óvaldaður fyrir miðju marki. Fleira gerðist ekki markvert fram að leikhléi.

Síðari hálfleikurinn var enn tíðindaminni en sá fyrri. Liverpool sótti en gekk illa að opna vörn City og skapa sér góð færi. Á 59. mínútu skipti Rafael Jermaine Pennant inn fyrir Luis til að reyna að skerpa á sóknarleiknum. Mínútu síðar átti Bernardo Corradi skot hárfínt framhjá. Robbie Fowler var rétt á eftir settur í sókina. Sókn Liverpool bar loks árangur á 67. mínútu. Stuðningsmaður Liverpool Joey Barton átti þá ónákvæma sendingu á rétt utan eigin vítateigs. Dirk Kuyt komst inn í sendinguna og kom boltanum í átt að Steven Gerrard. Fyrirliðinn hikaði hvergi, hirti boltann og lék upp að vítateig þaðan sem hann hamraði boltanum í markið óverjandi fyrir Nicky í markinu. Þetta fyrsta deildarmark Steven var honum greinilega mikill gleðigjafi því hann brosti út að eyrum þegar hann fagnaði markinu og það gerðu stuðningsmenn Liverpool líka svikalaust. Það sem eftir lifði mátti ekkert út af bera. Liverpool var sem fyrr sterkari aðilinn en gestirnir gáfust ekki upp. Grikkinn Georgios Samaras, sem kom inn sem varamaður átti lúmskt skot um tíu mínútum fyrir leikslok sem Jose Reina varði í horn. Eftir hornið varði Jose skot frá Claudio Reyna. Sigurinn hafðist og það var fyrir mestu.

Dietmar Hamann sat á bekknum allann leikinn og olli það stuðningsmönnum Liverpool nokkrum vonbrigðum. En Þjóðverjinn fékk frábærar móttökur eins og við var að búast á sínum gamla heimavelli.  

Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Agger, Garcia (Pennant 59. mín.), Gerrard, Zenden, Riise, Crouch (Fowler 65. mín.) og Kuyt (Bellamy 89. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek og Paletta.

Mark Liverpool: Steven Gerrard (67. mín.). 

Gul spjöld: Sanz Luis Garcia og Jamie Carragher.

Man City: Weaver, Onuoha (Samaras 74. mín.), Dunne, Distin, Thatcher, Reyna, Trabelsi (Ireland 85. mín.), Richards, Barton, Vassell og Corradi. Ónotaðir varamenn: Hart, Dickov og Hamann.

Gult spjald: Ben Thatcher.

Áhorfendur á Anfield Road: 44.081.

Maður leiksins: Steven Gerrard. Fyrirliðinn skoraði sigurmarkið og nú eru stuðningsmenn Liverpool farnir að kannast við hann. Hann var mjög duglegur a miðjunni og markið hjá honum var með þeim fallegri.

Rafael Benítez var ánægður með harðsóttan sigur. "Við fundum ekki það rými sem við þurftum í fyrri hálfleik. Leikmenn Manchester City voru duglegir í vörninni og grimmir á miðjunni. Í seinni hálfleik fengum við meira rými og fleiri möguleika og Steven skoraði frábært mark."

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan