| Sf. Gutt

Neil Mellor kveður með söknuði

Neil Mellor yfirgefur Liverpool með söknuði. Það er vel skiljanlegt því hann er búinn að leggja allt sitt í að reyna að festa sig í sessi þar. Hann telur það skref niður á við að yfirgefa Liverpool en lítur samt bjartsýnn til framtíðar.

"Ég held að allir þeir leikmenn sem yfirgefa Liverpool verði fyrir vonbrigðum með að fara því þetta er án nokkurs vafa eitt besta lið í heimi. Ég hef áður farið í lán til nokkurra félaga en það var stórt skref að yfirgefa Liverpool fyrir fullt og allt og festa trúss mitt við Preston.

Ég er mjög spenntur. Þetta er stórt félag sem hefur leikið í umspilinu síðustu tvær leiktíðir. Ég vona að við komumst einu skrefi lengra á þessari leiktíð og náum að komast upp úr deildinni. Fólk talar stundum um meiðslin sem ég hef átt í en núna snýst þetta bara um að spila fótbolta. Ég vona að ég fái tækifæri til að gera það fyrst ég er hingað kominn. Núna skil ég fortíðina við mig og horfi til framtíðar hjá Preston."

Neil Mellor lék 22 leiki í aðalliði Liverpool og skoraði sex mörk. Neil lét mest að sér kveða í aðalliði Liverpool leiktíðina 2004/2005. Hann skoraði þá fimm mörk í 16 leikjum áður en hann meiddist illa og var lengi frá. Má segja að meiðslin hefðu ekki getað komið á verri tíma. Hann lék ekkert það sem eftir var leiktíðarinnar og það var ekki fyrr en í kringum síðustu áramót sem hann var aftur leikfær. Hann fór í lán til Wigan í janúar og skoraði sigurmark í 3:2 útisigri gegn gegn Middlesborough í sínum fyrsta leik. En hann meiddist fljótlega og hefur ekki leikið neitt fyrr en nú á dögunum þegar hann skoraði mark í æfingaleik með varaliðinu gegn Wigan.

Neil skoraði tugi marki fyrir varalið Liverpool og sýndi svo ekki var um að villast að hann er markaskorari. Svo segir mér hugur að hann eigi eftir að skora drjúgt fyrir Preston North End.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan