| AB

Neil Mellor skrifar undir hjá Preston

Neil Mellor markahrókurinn mikli hjá varaliði Liverpool skrifaði í dag undir fjögra ára samning hjá Preston North End. Preston og Liverpool komust að samkomulagi um kaupverð í síðustu viku og gengið var frá samningnum í dag.

Þetta eru alls ekki slæm skipti fyrir Neil Mellor. Preston er í 1. deildinni og hefur verið nærri því að komast upp í efstu deild síðustu tvær leiktíðir. Neil fær nú tækifæri það til að sanna sig. Hann hefur gert garðinn frægan með varaliði Liverpool ef svo má að orði komast þar sem hann var nánast óstöðvandi. Það er hins vegar langur vegur á milli þess að vera góður í þeim styrkleikaflokki og láta að sér kveða í Úrvalsdeildinni þó að hann átti sín augnablik í rauðu treyjunni.

Neil Mellor verður ætíð minnst fyrir magnað mark sitt gegn Arsenal þegar hann skoraði sigurmarkið á lokamínútunni fyrir framan The Kop og líka þann þátt sem hann átti í endurkomu Liverpool gegn Olympiakos í riðlakeppni Meistaradeildar.  Hann skoraði þá mark og lagði upp annað eftir að hafa komið inn sem varamaður þegar Liverpool tryggði sér dramatískan sigur sem fleytti Rauða hernum áleiðis til Istanbul.

Neil Mellor lék 22 leiki í aðalliði Liverpool og skoraði sex mörk. Neil lét mest að sér kveða í aðalliði Liverpool leiktíðina 2004/2005. Hann skoraði þá fimm mörk í 16 leikjum áður en hann meiddist illa og var lengi frá. Má segja að meiðslin hefðu ekki getað komið á verri tíma. Hann fór tvívegis í lán. Fyrst til West Ham United og svo til Wigan Athletic. Hann var hjá Wigan á síðustu leiktíð og skoraði sigurmark í 3:2 útisigri gegn gegn Middlesborough í sínum fyrsta leik. En hann meiddist fljótlega og hefur ekki leikið neitt fyrr en nú á dögunum þegar hann skoraði mark í æfingaleik með varaliðinu gegn Wigan. Við óskum honum góðs gengis hjá Preston.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan