| Sf. Gutt

Enn einn titilinn vinnst í Cardiff!!!

Enn gefst Árþúsundaleikvangurinn í Cardiff vel og Samfélagsskjöldurinn verður geymdur í Liverpool næsta árið. Bikarmeistarar Liverpool lögðu Englandsmeistara Chelsea 2:1 að velli í Cardiff í dag. John Arne Riise kom Liverpool yfir snemma leiks. Úkraínumaðurinn Andriy Shevchenko jafnaði rétt fyrir leikhlé. Það var svo Peter Crouch sem tryggði Liverpool sigur tíu mínútum fyrir leikslok. Sigurinn var sætur og vel þegin. Þetta var í fimmtánda sinn sem Liverpool vinnur Skjöldinn góða!

Jose Mourinho stillti upp sinni sterkustu sveit en Rafael Benítez hóf leikinn með fastamenn á borð við Steven Gerrard, Xabi Alonso og Sami Hyypia á bekknum. Jamie Carragher leiddi Liverpool til leiks sem fyrirliði.

Leikmenn Liverpool hófu leikinn mun betur en Chelsea og bikarmeistararnir náðu forystu á 9. mínútu. Upphafið var að Chelsea fékk hornspyrnu. Frank Lampard sendi fyrir markið frá vinstri. Steve Finnan skallaði frá og boltinn barst út fyrir vítateiginn hægra megin. Þar náði John Arne Riise boltanum og tók á rás. Hann lék sem leið lá upp að vítateig Chelsea. Hann skaut svo snöggu og föstu skoti að marki af um 25 metra færi og boltinn lá í netinu. Carlo Cudicini hafði hendur á boltanum og hefði átt að verja. En leikmenn og stuðningsmönnum Liverpool var rétt sama því þetta glæsilega mark færði Liverpool undirtökin. Mótlætið fór í skapið á leikmönnum Chelsea og þeir Michael Ballack og Frank Lampard voru bókaðir fyrir slæmar tæklingar. Reyndar var Þjóðverjinn bókaður áður en Liverpool komst yfir. Hann meiddist svo um miðjan hálfleikinn og varð að fara af leikvelli. Þótt Liverpool hefði undirtökin þá var Andriy Shevchenko alltaf ógnandi í framlínu Chelsea og Jose Reina mátti hafa sig allan við að verja skot hans utan vítateigs. Hann hélt ekki boltanum en náði honum aftur. Stuttu fyrir hálfleik átti Luis Garcia skot af stuttu færi eftir snarpa sókn sem Carlo Cudicini, aðþrengdur af Peter Crouch náði að slá yfir. Chlesea færði sér þetta í nyt mínútu síðar á 43. mínútu. Frank Lampard sendi þá frábæra sendingu á Andriy. Varnarmenn Liverpool höfðu gleymt honum og Úkraínumaðurinn slapp einn upp að teignum. Hann skoraði af miklu öryggi framhjá Jose sem kom út á móti honum. Markið kom heldur gegn gangi leiksins en Andriy sýndi þarna hversu magnaður hann er. Það var því jafnt er liðin gengu til leikhlés.

Englandsmeistararnir byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti og léku töluvert betur en fyrir leikhlé. Jose Reina varð tvívegis að taka á honum stóra sínum með stuttu millibili. Fyrst sló hann boltann yfir markið eftir skot frá Didier Drogba. Eftir hornspyrnuna sem fylgdi í kjölfarið varði hann skalla frá Andriy í horn. Rafael Benítez hafði greinilega áhyggjur af gangi mála og skipti þeim Steven og Xabi inn á eftir klukkutíma leik. Þetta voru vel heppnaðar skiptingar því bikarmeistararnir náðu aftur yfirhöndinni í kjölfar þeirra. Það var mikil barátta á lokakafla leiksins en það voru þeir Rauðu sem náðu undirtökunum. Enn batnaði leikur Liverpool þegar Craig Bellamy kom til leiks. Hann naut sín vel á Árþúsundaleikvanginum þar sem hann hefur svo oft leikið með landsliði Wales. Tíu mínútum fyrir leikslok slapp hann einn upp vinstri kantinn eftir sendingu frá Fabio Aurelio. Hann lék upp upp á móts við miðjan vítateignn og sendi þaðan hárnákvæma sendingu yfir á fjærstöngina. Þar kom Peter Crouch og skallaði boltann óáreittur í markið. Stuðningsmenn Liverpool fyrir aftan markið trylltust af fögnuði og ekki fögnuðu leikmenn Liverpool minna. Englandsmeistararnir reyndu að jafna en varð ekki ágengt. Carlo bjargaði Chelsea meira að segja frá stærra tapi þar hann varði vel skot frá Fabio Aurelio. Leikmenn Liverpool spiluðu síðustu mínúturnar undir söng stuðningsmanna sinna sem sungu þjóðsönginn og aðra góða söngva hástöfum.

Eftir leikinn tóku þeir fóstbræður Steven Gerrard og Jamie Carragher við Samfélagsskildinum. Stuðningsmenn Liverpool nutu sigurstundarinnar en fylgismenn Chelsea voru flestir á bak og burt þegar hér var komið við sögu! Liverpool seldi sína miða á leikinn og voru stuðningsmenn töluvert fleiri en þeir sem fylgdu Chelsea að málum. Það var heldur ekki nein spurning um hvorir fylgismennirnir réðu ríkjum utan vallar! Vissulega frábær byrjun á leiktíðinni og þótt Skjöldurinn góði teljist ekki til stórtitla þá er alltaf vel þess virði að bæta honum á afrekaskrá félagsins!  

Liverpool: Reina, Finnan, Agger, Carragher, Riise, Pennant (Gerrard 60. mín.), Sissoko, Zenden (Alonso 60. mín.), Gonzalez (Aurelio 56. mín.), Crouch (Pongolle 89. mín.) og Garcia (Bellamy 66. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek og Hyypia.

Mörk Liverpool: John Arne Riise (9. mín.) og Peter Crouch (80. mín.).

Gult spjald: Xabi Alonso.

Chelsea: Cudicini, Paulo Ferreira (Mikel 81. mín.), Terry, Carvalho, Essien, Geremi (Bridge 53. mín.), Ballack (Kalou 26. mín.), Lampard, Shevchenko, Drogba (Wright-Phillips 71. mín.) og Robben (Diarra 62. mín.). Ónotaðir varamenn: Hilario og Mancienne.

Mark Chelsea: Andriy Shevchenko (43. mín.). 

Gul spjöld: Michael Ballack, Frank Lampard og Lassana Diarra.

Áhorfendur á Árþúsundaleikvanginum í Cardiff: 56.275.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan