| Sf. Gutt

Yfir strikið

Sumum þótti Gary Neville fara yfir strikið í fögnuði sínum yfir sigurmarkinu gegn Liverpool á sunnudaginn. Gary fagnaði ekki með félögum sínum heldur hljóp yfir endilangan völlinn þangað sem stuðningsmenn Liverpool voru þar sem hann ylgdi sig og gretti framan í þá. Þessi hegðun hans kom kannski ekki á óvart enda hefur Gary oft sagt opinberlega að hann þoli ekki Liverpool. En ýmsum þótti atgangur hans núna fullmikill. Kannski var hann skiljanlegur í ljósi þess að það er ekki á hverjum degi sem menn vinna Evrópumeistarana! En lögreglunni í Manchester fannst tilefni til að rannsaka málið og nú hefur Enska knattspyrnusambandið lagt fram kæru.

Fagnaðarlæti leikmanna hafa verið í fréttum að undanförnu. Arejen Robben leikmaður Chelsea var til dæmis rekinn út af fyrir að yfirgefa völlinn þegar hann fagnaði marki sínu gegn Sunderland. Eins tóku sumir eftir fagnaðarlátum Robbie Fowler þegar hann skoraði gegn Manchester United! Ég hugsa að stuðningsmenn Liverpool láti sér það í léttu rúmi liggja hvort umræddur leikmaður fær einhverja refsingu. Helst held ég að mesta refsingin sem við gætum hugsað honum væri sú að Liverpool vinni næsta leik við Manchester United!

Hvað sem mönnum finnst um þetta þá fannst Jamie Carragher Gary ganga oft langt. ,,Mér finnst að í þessum efnum sé ákveðin lína og Gary fór yfir strikið. Ég hef heyrt fólk segja að fögnuðurinn hafi verið réttlætanlegur því stuðningsmenn Liverpool láti hann alltaf hafa það óþvegið. En sannleikurinn er sá að hann fær það óþegið vegna þess að hann er búinn að láta svona í mörg ár. Þannig byrjaði þetta nú allt. Mér finnst það sama um Manchester United og Gary um Liverpool. Á þann hátt erum við svipaðir. En ég læt ekki svona þegar við skorum gegn United. Ef ég gerði það þá gæti ég ekki búist við öðru en skítkasti frá stuðningsmönnum United."

Stuðningsmenn Liverpool stóðu sig annars frábærlega á Old Trafford. Langtímum saman heyðust bara söngvar og hvatningarhróp þeirra. Þeir lögðu sig líka alla fram við að minna stuðningsmenn heimamanna á Evrópusigurinn á liðnu vori og reyndar alla Evrópusigrana fimm! Eins og sést á meðfylgjandi mynd þá var sannarlega nóg af Evrópubikurum í Manchester á sunnudaginn!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan