| Sf. Gutt

Neil Mellor til Cardiff!

Neil Mellor gæti orðið að ósk sinni og orðið Deildarbikarmeistari með Wigan. Í gærkvöldi átti Neil þátt í að koma Wigan í úrslitaleik keppninnar. Wigan tapaði 2:1 fyrir Arsenal á Highbury í seinni leik liðanna í undanúrslitum. Neil var í byrjunarliðinu og var duglegur í framlínunni. Honum var skipt út af í síðari hálfleik. Stephane Henchoz, sem varð Deildarbikarmeistari með Liverpool árin 2001 og 2003,  barðist eins og ljón í vörn Wigan allan tímann. Arsenal komst í 2:0 sem hefði komið þeim áfram því Wigan vann fyrri leikinn 1:0. En mark á næstsíðustu mínútu framlengingar kom Wigan í fyrsta úrslitaleik liðsins í stórkeppni. 

Líklega halda allir stuðningsmenn Liverpool með Wigan í Cardiff. Það er ekki nóg með að þeir Neil Mellor og Stephane Henchoz séu í liði Wigan. David Thompson er líka á mála hjá félaginu. Ég veit þó ekki hvort hann getur leikið með í keppninni. Hann var að minnsta kosti ekki með í gærkvöldi. Svo má ekki gleyma því að Paul Jewell framkvæmdastjóri Wigan er frá Liverpool og lék með yngri liðum Liverpool og varaliðinu á níunda áratug síðustu aldar. Það er því meira en næsta víst að Wigan Athletic getur reitt sig á það að stuðningsmenn Liverpool hugsi hlýlega til liðsins þegar það leikur til úrslita um Deildarbikarinn á Árþúsundaleikvanginum í Cardiff í næsta mánuði!  

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan