| Sf. Gutt

Þrjú dýrmæt stig í safnið!

Liverpool náði þremur dýrmætum stigum í safnið eftir að hafa náð að snúa Tottenham Hotspur niður á Anfield Road í dag. Sigurmark Evrópumeistaranna var langþráð ekki síst hjá markaskoraranum sjálfum. Ástralinn Harry Kewell skoraði eina mark leiksins og það var í fyrsta sinn sem hann skorar fyrir Liverpool frá því í desember fyrir rúmu ári. En sigurinn var dýrmætur fyrir þær sakir helstar að Tottenham var rétt á hælum Liverpool fyrir leikinn.

Fyrri hálfleikur var mjög tíðindalítill. Það var vissulega hart barist en hvorugt liðið gaf nokkuð færi á sér. Heimamenn voru þó öllu sterkari en þeim gekk illa að skapa sér færi gegn sterkri vörn Spurs sem var mjög vel á verði. Peter Crouch fékk gott færi snemma leiks en skalli hans var ekki nógu vel heppnaður og Paul Robinson varði. Hættulegasta færið kom þegar skalli frá Fernando Morientes hafnaði í þverslánni.  

En það færðist fjör í leikinn eftir leikhlé. Strax í upphafi hálfleiksins fékk Robbie Keane dauðafæri eftir fyrirgjöf frá hægri en hann náði ekki almennilega að stýra boltanum svo vel væri. En svo fór Liverpool að auka sóknarþungann í átt að Kop markinu. Peter Crouch náði góðum skalla að marki en Paul varði vem miklum tilþrifum. Þar kom að boltinn lá í markinu og þvílíkt mark. Á 59. mínútu sendi Steve Finnan frábæra fyrirgjöf inn á vítateig Tottenham. Harry Kewell tók boltann viðstöðulaust á lofti og hamraði hann í markið algerlega óverjandi fyrir aðalmarkvörð enska landsliðsins. Stórkostlegt mark og því var skiljanlega innilega fagnað utan vallar sem innan. Markið var langþráð fyrir Harry Kewell sem er búinn að vera nærri því að skora í mörgum undanförnum leikjum. Fyrir þennan leik hafði Harry leikið tuttugu og níu leiki án þess að skora mark. Það var því ekki erfitt að skilja fögnuð hans og annarra viðstaddra. En gestirnir ætluðu ekki að gefa sig og rétt á eftir markinu varði Jose Reina frábærlega frá Ahmed Mido. En Liverpool hafði yfirhöndina til leiksloka. Paul varði vel fasta aukaspyrnu frá Steven Gerrard sem notaði hvert tækifæri til að skjóta á markið. Þremur mínútum fyrir leikslok þyngdist enn róðurinn fyrir Spurs þegar Kanadamaðurinn Paul Stalteri var rekinn af leikvelli fyrir að brjóta á Harry Kewell sem var að sleppa einn í gegn. Lokamínúturnar voru spennandi. Paul Robinson varði frábærlega gott skot frá Mohamed Sissoko. Á síðusta andartaki leiksins fékk Robbie Keane boltann óvænt í góðu færi en hann hitti ekki boltann. Dómarinn flautaði til leiksloka og góðum sigri var fagnað í Musterinu.

Sigur Liverpool var mjög mikilvægur og hann sýnir enn styrk liðsins. Liðið sýndi yfirvegun og leikmenn voru þolinmóðir gegn erfiðum mótherjum. Þetta var tólfti deildarleikur Evrópumeistaranna í röð án taps og sigurinn var sá áttundi í röð í deildinni á heimavelli. Að auki náði Liverpool loksins að vinna Tottenham en Hanarnir höfðu ekki tapað fyrir þeim Rauðu í sex síðustu leikjum. Er þó undanskilinn Deildarbikarsigur Liverpool á White Hart Lane á síðustu leiktíð í vítaspyrnukeppni. 

Liverpool: Reina, Finnan, Hyypia, Carragher, Riise, Gerrard, Alonso, Sissoko (Kromkamp 90. mín.), Kewell, Morientes (Warnock 83. mín.) og Crouch (Cissé 66. mín.). Ónotaðir varamenn: Carson og Sinama Pongolle.

Mark Liverpool: Harry Kewell (59. mín.) 

Tottenham: Robinson, Stalteri, Dawson, King, Lee, Tainio (Defoe 67. mín.), Jenas, Carrick, Davids (Lennon 78. mín.), Mido og Keane. Ónotaðir varamenn: Cerny, Brown og Gardner.

Rautt spjald: Paul Stalteri (87. mín.).

Gult spjald: Teemu Tainio.

Áhorfendur á Anfield Road: 44,983.

Rafael Benítez var ánægður með sigurinn. "Þetta var mjög góður sigur fyrir okkur. Hann var torsóttur því við vorum að leika gegn góðu liði sem spilaði vel. Þeir voru mikið með boltann og fengu opið  færi í upphafi síðari hálfleiks eftir mistök hjá okkur. En við héldum okkar striki og áttum nokkur góð færi. Við spiluðum enga snilldarknattspyrnu í dag en liðið er nú betur samstillt til að vinna leiki eins og þennan."

Það er búin að vera frábær aðsókn á heimaleiki Evrópumeistaranna á þessari leiktíð. Eins og venjulega á þessari leiktíð var bekkurinn þétt setinn á Anfield í dag og alls voru 44.983 áhorfendur vitni að sigri Liverpool. Það mun vera metáhorfendafjöldi eftir að Anfield var endurbyggður í núverandi mynd eingöngu með sætum. Frábært!

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan