| Sf. Gutt

Evrópumeistararnir unnu og Peter Crouch braut ísinn

Biðin er á enda. Þar kom loksins að því að Peter Crouch skoraði. Hann skoraði í tvígang í gær þegar Liverpool lagði Wigan örugglega að velli 3:0 á Anfield Road. Liverpool lék frábærlega á köflum í leiknum og sigurinn hefði getað orðið miklu stærri. Liverpool er nú í þriðja sæti deildarinnar eftir sex sigra í röð.

Liverpool byrjaði leikinn af miklum krafti og það var greinilegt að Evrópumeistararnir ætluðu sér ekkert nema sigur. Ellefta mínúta leiksins leið og þar með hafði Peter Crouch leikið heilan sólarhring fyrir Liverpool án þess að skora mark. En markið kom á 19. mínútu. Peter fékk boltann við miðju og lék upp að marki Wigan. Rétt utan vítateigs skaut hann að marki. Boltinn fór í Leighton Baines og hátt í loft upp. Á marklínunni reyndi Mike Pollitt, markmaður Wigan, að koma boltanum frá markinu en allt kom fyrir ekki og boltinn fór í markið. Mikill fögnuður braust út þegar boltinn lá í markinu og Peter tók á rás og hljóp í átt að The Kop og félagar hans á eftir honum. Þeir náðu honum ekki fyrr en aftur við miðju. Þó svo að Mike hafi blakað boltanum í markið þá var greinilegt að Peter eignaði sér markið og engan undraði að hann skyldi fagna markinu svo innilega. Litlu síðar bætti Mike fyrir mistökin þegar hann gerði vel í að verja aukaspyrnu frá Steven Gerrard. Hann varði litlu síðar aftur frá Steven eftir að fyrirliðinn hafði tekið mikla rispu inn í vítateiginn. Harry Kewell skaut svo í hliðarnetið úr góðu færi. En hafi einhver vafi leiki á því hver átti fyrsta mark leiksins þá gat ekki nokkur velkst í vafa um næsta mark. Það kom á 42. mínutu. Steve Finnan sendi þá frábæra sendingu fram völlin yfir vörn Wigan. Peter Crouch stakk sér í gegn og náði boltanum. Hann lék upp að markinu og lyfti boltanum yfir Mike Pollitt af miklu öryggi. Ekki fagnaði Peter þessu marki síður en hinu. Nú var risinn kominn á blað!

Gestirnir, sem gáfust aldrei upp, reyndu að minnka muninn í upphafi síðari hálfleiks. Sami Hyypia bjargaði þá frábærlega með því að komast fyrir markskot úr góðu færi. Fernando Morientes var nærri því að auka forystuna þegar hann skallaði í þverslá. Jose Reina ætlaði sér að halda hreinu og þurfti að taka á þegar hann varði frá Jimmy Bullard. En Liverpool gerði endanlega út um leikinn á 70. mínútu. Fernando Morientes skallaði þá að marki eftir hornspyrnu. Luis Garcia var vel vakandi í markteignum og stýrði boltanum laglega í markið með brjóstkassanum. Þremur mínútum seinna var Peter skipt af leikvelli. Stuðningsmenn Liverpool stóðu upp og klöppuðu fyrir honum þegar hann skipti við Djibril Cissé. Mike Pollitt kom í vegn fyrir enn stærri sigur undir lokin. Fyrst varði hann fasta aukaspyrnu frá Steven Gerrard og svo bjargaði hann í tvígang frá Fernando. Frábær sigur í höfn og sá sjötti í röð í deildinni.

Enn heldur gott gengi Liverpool áfram. Liðið lék mjög vel í gær og líklega var þetta besti leikur liðsins í sigurgöngunni. Sigurinn var síst of stór og Jose Reina hélt marki sínu hreinu áttunda leikinn í röð. Þegar svona gengur eru Evrópumeistararnir ekki árennilegir. 

Liverpool: Reina, Finnan, Hyypia, Carragher, Warnock, Garcia, Gerrard, Alonso (Hamann 67. mín.), Kewell (Riise 62. mín.), Crouch (Cisse 73. mín.) og Morientes. Ónotaðir varamenn: Carson og Josemi.

Mörkins: Peter Crouch (19. og 42. mín.) og Luis Garcia (70. mín.).

Gult spjald: Sami Hyypia.

Wigan: Pollitt, Chimbonda, Henchoz, De Zeeuw (Jackson 35. mín.), Baines, Bullard, Kavanagh (Skoko 78. mín.), Francis (Connolly 66. mín.), McCulloch, Roberts og Camara. Ónotaðir varamenn: Walsh og Taylor.

Gul spjöld: Chimbonda og Stephane Henchoz.

Áhorfendur á Anfield Road: 44.098.

Rafael Benítez gladdist, eins og aðrir fyrir hönd Peter Crouch. "Allir gleðjast fyrir hönd Peter og stuðningsmennirnir sýndu hvaða hug þeir bera til hans. Ég vona að hann geti núna skorað fleiri mörk. En eins og ég hef sagt þá er mikilvægast að liðið vinni. Við lékum mjög vel gegn Wigan og við áttum þrjú eða fjögur opin færi á að skora. Því miður náðum við ekki að skora fleiri mörk. Við þurfum að skora fleiri mörk miðað við færin sem við erum að skapa okkur."

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan