| Sf. Gutt

Í hnotskurn

Níuhundraðasta jafnteflið. Eða hvað? Þetta er leikur Liverpool og Tottenham Hotspur í hnotskurn.

- Þetta var fyrsti leikur Liverpool í fimmtán daga.

- Fyrir fimmtán dögum vann Liverpool Stórbikar Evrópu, í þriðja sinn, með því að vinna CSKA Moskva 3:1 í Mónakó. Liðið hafði ekki spilað eftir það.

- Leiktíðin hjá Liverpool hófst í byrjun sláttar en samt var þetta aðeins þriðji deildarleikur liðsins.

- Peter Crouch lék sinn fyrsta deildarleik með Liverpool gegn liðinu sem hann hóf feril sinn hjá. Hann spilaði reyndar aldrei með aðalliði Tottenham.

- Peter var meiddur en hann hefði hvort sem er ekki getað leikið fyrstu tvo deildarleikina með Liverpool því hann var í leikbanni.

- Talnaglöggir menn segja þetta níuhundraðasta jafntefli Liverpool í efstu deild.

- Liverpool hélt markinu hreinu. Það var í fyrsta skipti frá árinu 1996 sem Liverpool heldur hreinu á White Hart Lane.

- Liverpool hefur ekki gengið of vel á White Hart Lane á síðustu árum. Liðið hefur aðeins unnið einn deildarleik þar frá árinu 1996. Sá leikur vannst á leiktíðinni 2002/03. Reyndar hefur Liverpool bara unnið þrívegis í síðustu fjórtán heimsóknum sínum til White Hart Lane.

- Enn gengur hægt að vinna útileiki í deildinni. Liverpool hefur aðeins unnið einn af síðustu átta deildarleikjum.  

- Kannski kom jafntefli ekki á óvart. Liverpool og Tottenham skildu jöfn í báðum deildarleikjum sínum á síðustu leiktíð. Liðið skildu líka jöfn í höfuðstaðnum í Deildarbikarnum. En Liverpool fagnaði þó sigri í vítaspyrnukeppni sem fylgdi því jafntefli.

- Jose Reina hefur enn ekki fengið á sig mark í deildinni. Reyndar hefur hann aðeins fengið á sig þrjú mörk í átta leikjum á ferli sínum hjá Liverpool.

- Aðeins Evrópumeistararnir og Englandsmeistararnir hafa enn ekki fengið mark á sig í deildinni.

- Djimi Traore spilaði sinn fyrsta leik frá því í Istanbúl í vor.

- Það er sama hvað maður horfir á marga leiki. Alltaf  sér maður eitthvað nýtt á knattspyrnuvellinum. Nú voru mörk dæmd af báðum liðum, á skömmum tíma, fyrir sömu og sjaldgæfar sakir. Bæði lið skoruðu eftir hornspyrnur og í báðum tilfellum voru mörkin dæmd af vegna þess að línverðir töldu boltann hafa farið aftur fyrir endamörk á leið sinni fyrir markið. Línuverðirnir voru samtaka í þessum dómum sínum.

Tottenham: Robinson, Stalteri, King, Gardner, Lee, Lennon (Brown 82. mín.), Jenas, Carrick, Davids, Rasiak (Keane 82. mín.) og Defoe. Ónotaðir varamenn: Cerny, Naybet og Reid.

Gult spjald: Edgar Davids.

Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Warnock (Alonso 69. mín.), Garcia, Hamann (Sissoko 45. mín.), Gerrard, Riise, Cissé og Crouch (Traore 77. mín.). Ónotaðir varamenn: Carson og Josemi.

Gult spjald: Sami Hyypia.

Áhorfendur á White Hart Lane: 36.148.

Maður leiksins samkvæmt Liverpool.is: John Arne Riise átti góðar rispur á vinstri kantinum. Það var þó stór munur á leik hans á meðan hann var í stöðu vinstri bakvarðar og þegar hann spilaði á kantinum. Hann er einfaldelga ekki nógu góður bakvörður. En hann var duglegur á kantinum og átti tvær glæsilegar marktilraunir. Það var hroðalegt að sjá boltann hafna í þverslánni. Skotið verðskuldaði mark.

Jákvætt :-) Liverpool tefldi fram tveimur sóknarmönnum. Rafael hefur gjarnan viljað spila með einn mann í sókn á útivöllum. Nú breytti hann þó til hvað þetta varðaði og er það vel. Jose Reina hefur enn ekki fengið á sig mark í deildinni. Það var gott að sjá þá Peter Crouch og Djimi Traore koma til leiks eftir meiðsli. Liðið er taplaust í deildinni.

Neikvætt :-(  Leikmenn Liverpool skoruðu ekki og nú er liðið aðeins búið að ná einu marki í þremur fyrstu deildarleikjunum og það kom beint úr aukaspyrnu. Enn verður Stepehn Warnock fyrir meiðslum. Meiðslin munu sem betur fer ekki vera alvarleg. Það var leiðinlegt að bylmingsskot John Arne Riise skyldi ekki rata í markið. Þetta hefði orðið eitt af mörkum leiktíðarinnar.

Umsögn Liverpool.is um leikinn: Leikurinn byrjaði frekar rólega en hraðinn jókst þó þegar leið á hálfleikinn. Fá færi komu í fyrri hálfleik. Peter Crouch skallaði þó rétt yfir en Tottenham fékk besta færi hálfleiksins. Jose Reina varði þá frábærlega fasta aukaspyrnu frá Edgar Davids. Pólverjinn Grzegorz Rasiak tók frákastið en skalli hans datt ofan á þverslána. Í síðari hálfleik æstist leikurinn. Liverpool byrjaði mjög vel. Enski landsliðsmarkvörðuinn Paul Robinson mátti hafa sig allan við að verja tvö föst langskot frá þeim Djibril Cissé og John Arne Riise. Litlu síðar átti John Arne viðstöðulaust bylmingsskot sem fór í þverslána og niður. Þetta hefði orðið sannkallað glæsimark. Bæði lið skoruðu áþekk mörk sem voru dæmd af fyrir sömu sakir og það sjaldgæfar. Fyrst skoraði Grzegorz Rasiak með skalla eftir hornspyrnu. Línuvörðurinn veifaði flaggi sínu til merkis um að boltinn hefði farið aftur fyrir endalínu. Hinn línuvörðurinn dæmdi svo það sama hinu megin á vellinum þegar Peter Crouch skoraði eftir hornspyrnu. Ekkert mark var því skorað en það var nóg af færum. Jafntefli var nokkuð sanngjörn niðurstaða.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan