| Sf. Gutt

Markmiðið náðist

Markmiðið, að tryggja sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar, náðist í gærkvöldi. En það var ekki neinn glæsibragur yfir því. Liverpool tapaði 1:0 á Anfield Road fyrir CSKA Sofia. Liðið vann þó rimmu liðanna samtals 3:2 og er þar með komið í hina eftirsóttu riðlakeppni. Það mun því veitast frekara tækifæri til að verja Evrópubikarinn.

Varnaðarorð Ian Rush, sem fram komu í vikulegum pistli hans í Echo, voru orð í tíma töluð. Hann sagði að fyrsta mark leiksins yrði mjög mikilvægt. Þetta kom á daginn. Í upphafi virtist reyndar Liverpool ætla að taka öll völd. Djibril Cisse komst einn í gegn en markvörður gestanna, sem átti mjög góðan leik, varði vel. Búlgörsku meistararnir komust svo yfir á 16. mínútu þegar Valentin Iliev skoraði eftir vel útfærða aukaspyrnu. Litlu síðar bjargaði Scott Carson frábærlega eftir að einn leikmanna Sofia komst einn í gegn. Leikmenn Liverpool virtust taka þessu öllu með ró. Það var ekki fyrr en í síðari hálfleik sem menn fóru að taka sig á.

John Arne Riise átti bylmingsskot stuttu eftir leikhlé sem markvörðurinn sló yfir. Gestirnir svöruðu með þrumuskoti sem fór rétt framhjá. Þetta var reyndar síðasta hættulega marktilraun CSKA Sofia. Liverpool sótti grimmt á tímabili. John Arne var frískur og átti góðar marktilraunir. Fernando Morientes kom sér svo í gott færi. Hann komst framhjá markverðinum en varnarmaður bjargaði á línu. Á síðustu mínútu leiksins átti Mohamed Sissoko þrumuskot sem hafnaði í markvinklinum. Samanlagður sigur var í höfn en tap á heimvelli er alltaf óþolandi.

CSKA Sofia tókst ekki það sama og liðið gerði síðast þegar liðið spilaði við Liverpool leiktíðina 1981/82. Þá var Liverpool Evrópumeistari og féll úr leik samtals 2:1 fyrir CSKA Sofia. Í gærkvöldi náði Liverpool að yfirstíga síðustu hindrunina sem stóð í vegi fyrir sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Liðið gerði það á sama hátt fyrir ári. Þá lagði liðið Graz 2:0 í Austurríki en tapaði svo seinni leiknum 1:0 á Anfield Road. Þá hófst vegferð sem allir stuðningsmenn Liverpool muna hvernig endaði! Vonandi eru þá úrslit gærkvöldsins góðs viti eftir allt!

Liverpool: Carson, Finnan, Josemi, Hyypia, Warnock (Zenden 64. mín.), Potter (Garcia 45. mín.), Hamann, Sissoko, Riise, Cisse (Sinama Pongolle 83. mín) og Morientes. Ónotaðir varamenn: Reina, Alonso, Carragher og Barragan.

Markið:  CSKA Sofia, Valentin Iliev (16. mín.).

Áhorfendur á Anfield Road: 42.175.

Rafael Benítez vildi líta á björtu hliðarnar eftir leikinn: ,,Ég vil líta á það jákvæða. Mér fannst við skapa okkur næg tækifæri til að vinna leikinn. Það eina sem vantaði var heppni. Þeir skoruðu snemma og það gerði okkur erfitt fyrir. En það var erfitt fyrir liðið mitt að leika á fullu því menn vissu að þeir eiga stórleik framundan á föstudaginn. Að auki höfðum við 3:1 forystu frá fyrri leiknum. Þegar upp var staðið vorum við nógu góðir og aðalmálið var að komast áfram."



 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan