| Sf. Gutt

Stórgóð byrjun!

Óhætt er að segja að Liverpool hafi náð stórgóðri byrjun á fimmtuguustu Evrópuvegferð liðsins. Eftir magnaða byrjun komst Atletico Madrid inn í leikinn og jafnaði. En enn einu sinni sýndi Rauði herinn kraft sinn á lokamínútunum. Það var því vel fagnað eftir 3:2 sigur Liverpool á Anfield Road. 

Liverpool komst yfir strax í byrjun með heppnismarki. Mohamed Salah tók aukaspyrnu rétt við vítateiginn. Ekki virtist vera hætta á ferðum fyrr en boltinn fór í kálfan á Andrew Robertson, sem sneri baki í Mohamed, og af honum fór boltinn í markið. Eitt mest heppnismark í sögu Liverpool! Þetta var eftir fjórar mínútur. Eftir sex mínútur var Liverpool tveimur mörkum yfir. Nú var ekki nein heppni á ferðinni. Mohamed Salah braust inn í vítateiginn, eftir spil við Ryan Gravenberch, og sendi boltann örugglega neðst út í vinstra hornið. Mikill fögnuður á Anfield enda fullt tilefni til! 

Liverpool hafði öll völd þar til Atletico komst inn í leikinn með marki Marcos Llorente í viðbótartíma fyrri hálfleiks. Hann skoraði hægra megin úr vítateignum. Alisson Becker var með menn fyrir framan sig og sá ekki boltann fyrr en of seint. Liverpool hefði átt að vera tveimur mörkum yfir í hálfleik en svo var ekki. 

Altetico ógnaði lítt og allt virtist í fínu lagi. Á 65. mínútu lagði Florian Wirtz upp færi fyrir Mohamed er skot hans úr teignum fór í stöng. En níu mínútum fyrir leikslok var allt orðið jafnt. Marcos skoraði þá aftur. Boltinn hrökk til hans við vítateiginn. Hann skaut viðstöðulaust að marki. Boltinn fór af Alexis Mac Allister og í markið!

Liverpool lét þetta ekki á sig fá og upphófst nú linnulaus sókn að marki Atletico. Þegar tvær mínútur voru komnar yfir venjulegan leiktíma fékk Liverpool enn einu sinni horn. Dominik Szoboszlai tók hornið, sem var frá hægri, og hitti beint á Virgil van Dijk. Fyrirliðinn gat ekki hitt boltann betur og boltinn þandi netmöskvana fyrir framan Kop stúkuna. Glæsilegt mark. Fullkominn endir á stórgóðum leik!

Mörk Liverpool: Andrew Robertson (4. mín.), Mohamed Salah (6. mín.) og Virgil van Dijk (90+2).

Mörk Atletico Madrid: Marcos Llorente (45. og 81. mín.).

Áhorfendur á Anfield Road: 59.507.

Maður leiksins: Ryan Gravenberch. Hollendingurinn var algjörlega frábær á miðjunni!

Fróðleikur

- Þetta er fimmtugasta leiktíð Liverpool í Evrópukeppnum. 

- Þeir Andrew Robertson og Virgil van Dijk opnuðu markareikninga sína á keppnistímabilinu.

- Mohamed Salah skoraði þriðja mark sitt á leiktíðinni. 

- Alexander Isak lék sinn fyrsta leik með Liverpool.

- Rio Ngumoha varð yngsti leikmaður Liverpool til að spila í Evrópukeppni. 

- Andre Slot varð 47 ára í dag. 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan