| Sf. Gutt

Landsleikjafréttir

Fyrstu landsleikjahrotu haustsins er lokið. Ekki er vitað til þess að neinn af leikmönnum Liverpool hafi meiðst. Vonandi reynist það rétt. 

Tveir leikmenn Liverpool spiluðu fyrir Frakka á móti Íslandi í París í gærkvöldi. Ibrahima Konaté lék allan leikinn. Hugo Ekitike lék lokaandartök leiksins. Frakkland vann 2:1. Guðlaugur Victor Pálsson, fyrrum lærisveinn Liverpool, lék allan leikinn í hjarta varnar Íslands.

Dominik Szoboszlai og Milos Kerkez léku í heimaleik á móti Portúgal. Gestirnir unnu 2:3.

Í Suður Ameríku léku Argentína og Brasilía. Tvö útitöp komu ekki að sök því báðar þjóðir hafa tryggt sér sæti á heimsmeistaramótinu á næsta ári. 

Alexis Mac Allister var í byrjunarliði Argentínu sem tapaði 1:0 í Ekvador.

Alisson Becker lék með Brasilíu sem tapaði 1:0 fyrir Bólivíu.

Mohamed Salah var með Egyptum í Búrkína Fasó. Leiknum lauk án marka. 

Wales tók á móti Kanada í vináttuleik í Swansea. Kanada vann 0:1. Ungliðinn Lewis Koumas kom inn sem varamaður.

Trent Kone-Doherty lék sinn fyrsta leik með undir 21. árs liði Íra sem unnu Andorra 1:0. 

Skotar gerðu góða ferð til Belarús á mánudagskvöldið og unnu 0:2. Andrew Robertson var í stöðu vinstri bakvarðar. Ben Doak, fyrrum leikmaður Liverpool, lék líka með Skotum. 

Grikkir töpuðu 0:3 heima fyrir Dönum. Kostas Tsimikas var í liði Grikkja. 

Svíþjóð mætti Kósóvó á útivelli. Heimamenn unnu 2:0. Alexander Isak kom inn sem varamaður. Þetta var það fyrsta sem hann spilar í sumar og haust eftir að hann var settur út úr liðshópi Newcastle United. 

Á sunnudaginn mættust Flirian Wirtz og Conor Bradley þegar Þjóðverjar unnu Norður Íra í Köln. Florian skoraði þriðja mark Þýskra beint úr aukaspyrnu. 

Holland vann góðan sigur 2:3 í Litháen. Virgil van Dijk og Cody Gakpo voru í liði Hollands. Cody lagði upp eitt mark. 

Giorgi Mamardashvili hélt hreinu þegar Georgía vann Búlgaríu 3:0.

Japan og Mexíkó gerðu jafntefli án marka í æfingaleik. Wataru Endo var í liði Japans. 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan