| Heimir Eyvindarson

Evrópudraumurinn úti

Liverpool tapaði fyrir PSG í seinni viðureign liðanna í 16 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á Anfield s.l. þriðjudag, eftir framlengingu og vítakeppni. 

Liverpool byrjaði leikinn mjög vel og var betra liðið á vellinum fyrstu mínúturnar. Á 12. mínútu skoraði Dembelé hins vegar mark fyrir PSG, gegn gangi leiksins og það var markið sem skildi liðin að það sem eftir lifði venjulegs leiktíma og 30 mínútna framlengingar. 

Það er í sjálfu sér ekki mikið um þennan leik að segja úr þessu. Við töpuðum, en spiluðum nokkuð vel. Arne Slot sagði að liðið hefði líklega klárað það sem var inni á heppnisbankanum í fyrri leiknum sem er held ég nokkuð góð lýsing.

Það er klárt mál að PSG er besta liðið sem við höfum mætt í vetur og sjálfsagt ekkert ofmat hjá Enrique að halda því fram að liðið sem kláraði þennan leik komist alla leið í úrslitin. Franska liðið barðist mjög vel allan tímann og gerði virkilega vel að halda okkar annars ágætu sóknarlínu niðri í báðum leikjunum. 

Um vítakeppnina er lítið að segja, bæði Szoboszlai og Mac Allister voru farnir út af, en ég reikna með að báðir hefðu tekið víti ef þeirra heði notið við. Stóri umræðupunkturinn eftir leikinn var að Nunez skyldi taka víti nr. 2, ég ætla ekki að velta mér frekar upp úr því. Það er ástæða fyrir því að þessi leikskýrsla kemur ekki inn fyrr en núna. 

Við eigum enn möguleika á tveimur verðlaunagripum í ár. Áfram gakk.

YNWA!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan