Léttur sigur!
Liverpool vann léttan 4:1 sigur á Ipswich Town á Anfield Road í dag. Einhverjum finnst kannski að það sé hroki að tala um léttan sigur en yfirburðir Liverpool í leiknum voru algjörir. Liverpool leiðir enn deildina!
Liverpool tók öll völd um leið og dómarinn flautaði til leiks í björtu en köldu veðri. Eftir 11 mínútur lá boltann í marki Ipswich. Ibrahima Konaté sendi fram frá miðju á Dominik Szoboszlai. Ungverjinn lék á einn varnarmenn og skaut svo með vinstri neðst í hægra hornið. Vel að verki staðið.
Sem fyrr segir voru yfirburðir Liverpool algjörir en næsta mark kom ekki fyrr en á 35. mínútu. Cody Gakpo fékk boltann vinstra megin og sendi yfir á fjærstöng. Þar tók Mohamed Salah boltann niður og smellti honum upp í þaknetið úr mjög þröngu færi nærri endalínunni. Frábærlega gert hjá egypska Kónginum. Enn eitt glæsimarkið hjá Mohamed!
Níu mínútum seinna kom mark númer þrjú. Dominik fékk boltann hægra megin í vítateignum og skaut að marki. Christian Walton varði en hélt ekki boltanum. Cody var nærri, hirti frákastið og skoraði af stuttu færi. Örugg forysta í hálfleik.
Áfram héldu yfirburðir Liverpool og Ipswich komst varla fram fyrir miðju. Á 65. mínútu lék Trent Alexander-Arnold fram hægri kantinn. Hann leit upp og sá Cody inni í vítateignum. Hann sendi svo hárnákvæma sendingu fyrir beint á Cody sem skallaði auðveldlega í markið fyrir framan Kop stúkuna. Flestir sáu um leið og Trent gaf fyrir hvernig endalokin á þessari sókn yrðu. Meistaralega gert!
Á 73. mínútu átti Trent fast skot utan vítateigs sem sveif rétt framhjá vinsta vinklinum. Litlu síðar fékk Trent boltann í vítateignum en skot hans fór í hægri stöngina rétt fyrir neðan vinkilinn.
Á síðustu mínútum leiksins létu gestirnir loks á sér kræla. Varamaðurinn George Hirst átti skalla við markteiginn sem Alisson Becker varði stórvel þegar sex mínútur voru eftir. Á síðustu mínútunni skallaði Jacob Greaves í mark af stuttu færi eftir horn. Fúlt að halda ekki heinu eftir alla þá yfirburði sem Liverpool sýndi í leiknum. Það breytti þó ekki neinu um yfirburðasigur Liverpool.
Sennilega var þetta auðveldasti leikur Liverpool á keppnistímabilinu. Liverpool lék frábærlega og hefði átt að vinna ennþá stærri sigur. Liverpool leiðir deildina og meira er ekki hægt að fara fram á!
Liverpool: Allison, Alexander-Arnold, van Dijk, Konate, Robertson; Gravenberch (Endo 68. mín.), Mac Allister (Danns 80. mín.); Salah 7, Szoboszlai 8 (Elliott 68. mín.), Gakpo 8.5 (Nunez 68. mín.) og Diaz 6 (Chiesa 86. mín.). Ónotaðir varamenn: Kelleher, Tsimikas, Quansah og Bradley.
Mörk Liverpool: Dominik Szoboszlai (11. mín.), Mohamed Salah (35. mín.) og Cody Gakpo (44. og 65. mín.).
Ipswich Town: Walton; Tuanzebe, O’Shea, Greaves, Davis (Townsend 45. mín.); Phillips, Morsy; Burns (Johnson 29. mín.), Hutchinson (Enciso. mín.), Philogene (Broadhurst 79. mín.) og Delap (Hirst 79. mín.). Ónotaðir varamenn: Muric, Taylor, Luongo, Broadhead og Godfrey.
Mark Ipswich: Jacob Greaves (90. mín.).
Gul spjöld: Liam Delap og Julio Enciso
Áhorfendur á Anfield Road: 60.420.
Maður leiksins: Cody Gakpo. Hollendingurinn er búinn að vera stórgóður á leiktíðinni. Í dag skoraði hann tvö mörk og lagði upp eitt. Frábærlega gert.
Arne Slot: ,,Í áttatíu og fimm mínútur var þetta svo til fullkominn leikur hjá okkur. Það er ekki alltaf auðvelt að spila svoleiðis gegn liðum sem draga sig svona aftarlega. En við spiluðum virkilega vel í áttatíu og fimm mínútur."
Fróðleikur
- Alls töldust 60.420 áhorfendur á Anfield. Aldrei áður hafa verið svo margir áhorfendur á Anfield á deildarleik.
- Dominik Szoboszlai skoraði í fjórða sinn á leiktíðinni.
- Mohamed Salah skoraði skoraði sitt 23. mark á keppnistímabilinu.
- Cody Gakpo er kominn með 14 mörk á sparktíðinni.
- Cody er búinn að skora í síðustu sex leikjum sínum á Anfield. Hann hefur líka lagt upp tvö mörk í leikjunum.
- Virgil van Dijk lék leik númer 300 fyrir hönd Liverpool.
-
| Sf. Gutt
Allt jákvætt! -
| Sf. Gutt
Skammarlegt tap! -
| Sf. Gutt
Mikil tilhlökkun í Plymouth -
| Sf. Gutt
Leikjatilfærslur -
| Sf. Gutt
Liverpool og Newcastle United mætast í úrslitum! -
| Sf. Gutt
Í úrslit annað árið í röð! -
| Sf. Gutt
Spáð í spilin -
| Sf. Gutt
Trent meiddur -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Newcastle -
| Sf. Gutt
Hvað gerist? - Uppfært í dag og fram á kvöld!