Stórgóð byrjun!
Byrjun Liverpool í Meistaradeildinni var stórgóð. Rauði herinn sótti sigur til Mílanó. Eftir að hafa lent marki undir sneri Liverpool taflinu við og vann 1:3 sigur.
Þrátt fyrir þetta áfall voru leikmenn Liverpool býsna fljótir að ná áttum. Eftir rúman stundarfjórðung fékk Mohamed Salah boltann frá Diogo Jota. Hann náði að leggja boltann fyrir sig í vítateignum og ná skoti. Boltinn hafnaði í slánni og þeyttist þaðan niður rétt við marklínuna. En AC Milan slapp ekki á 23. mínútu. Liverpool fékk aukaspyrnu við endalínuna vinstra megin. Trent Alexander-Arnold lyfti boltanum fyrir markið á Ibrahima Konaté. Frakkinn stökk hærra en allir aðrir og skallaði boltann í markið. Frábær sending frá Trent sem hitti beint á Ibrahima.
Rétt á eftir braust Alexis Mac Allister fram að vítateignum. Hann sendi til vinstri á Diogo sem stakk sér inn í teiginn en skaut framhjá. Hann hefði átt að hitta markið og í raun átti hann að skora. Eftir hálftíma varði markmaður Milan skot en hélt ekki boltanum. Mohamed hirti frákastið og náði að skjóta á markið. Það fór alveg eins og síðast. Boltinn fór í þverslána og niður á marklínuna.
Liverpool réði lögum og lofum. Þegar fjórar mínútur voru til hálfleiks fékk Liverpool horn frá hægri. Kostas Tsimikas sendi fyrir markið. Fyrir framan markið í markteignum stökk Virgil van Dijk hærra en allir aðrir og skallaði boltann í markið. Markið ljósrit af fyrra markinu. Báðir miðverðirnir búnir að skora eftir sendingar frá bakvörðunum. Sanngjörn forysta í hálfleik.
Yfirburðir Liverpool héldu áfram eftir hlé. Liverpool átti góðar sóknir sem ekki skiluðu mörkum en á 67. mínútu kom þriðja markið. Liverpool náði hraðri sókn. Cody Gakpo æddi inn í vítateiginn og gaf fyrir til hægri á Dominik Szoboszlai sem stýrði boltanum í markið af stuttu færi.
Eftir þetta var sigur Liverpool öruggur. Í viðbótartíma komu Wataru Endo og Federico Chiesa inn sem varamenn. Þetta var fyrsti leikur Federico fyrir Liverpool. Alisson Becker varði bylmingsskot frá Rafael Leao í blálokin í stöngina. Sigurinn öruggur!
Liverpool lenti undir en í stað þess að hafa engin svör eins og í sömu stöðu á móti Nottingham Forest um helgina svaraði Rauði herinn með því að taka öll völd og vinna öruggan sigur. Stórgóð byrjun í Meistaradeildinni!
Mark AC Milan: Christian Pulisic (3. mín.).
Gul spjöld: Davide Calabria og Youssouf Fofana.
Mörk Liverpool: Ibrahima Konaté (23. mín.), Virgil van Dijk (41. mín.) og Dominik Szoboszlai (67. mín.).
Gul spjöld: Alexis Mac Allister og Ibrahima Konaté.
Áhorfendur á San Siro: 59.826.
Maður leiksins: Cody Gakpo. Hollendingurinn var í fyrsta sinn í byrjunarliði Liverpool á leiktíðinni. Hann var stórgóður á vinstra kantinum.
Fróðleikur
- Þetta var fjórði sigur Liverpool í röð á San Siro.
- Liverpool hefur unnið fjóra af fimm leikjum á þessum sögufræga leikvangi.
- Ibrahima Konaté, Virgil van Dijk og Dominik Szoboszlai skoruðu allir í fyrsta sinn á leiktíðinni.
- Federico Chiesa lék sinn fyrsta leik með Liverpool.
-
| Sf. Gutt
Arne Slot setur nýtt félagsmet! -
| Sf. Gutt
Stóð sannarlega undir væntingum! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Stórsigur í Deildarbikarnum! -
| Sf. Gutt
Íslenskir heiðursgestir á Anfield! -
| Sf. Gutt
Trent kominn upp í 100! -
| Sf. Gutt
Sorgarfréttir -
| Sf. Gutt
Fjórir sigrar í röð í Mílanó! -
| Sf. Gutt
Ótrúlegur munur! -
| Sf. Gutt
Til hamingju!