| Sf. Gutt

Stórgóð byrjun!

Byrjun Liverpool í Meistaradeildinni var stórgóð. Rauði herinn sótti sigur til Mílanó. Eftir að hafa lent marki undir sneri Liverpool taflinu við og vann 1:3 sigur. 

Heimamenn fengu óskabyrjun og komust yfir eftir þrjár mínútur. Álvaro Morata sendi fram á Christian Pulisic sem tók á rás inn í vítateiginn. Þegar hann var kominn vel inn í teiginn hægra megin skaut hann boltanum óverjandi neðst út í hornið fjær.

Þrátt fyrir þetta áfall voru leikmenn Liverpool býsna fljótir að ná áttum. Eftir rúman stundarfjórðung fékk Mohamed Salah boltann frá Diogo Jota. Hann náði að leggja boltann fyrir sig í vítateignum og ná skoti. Boltinn hafnaði í slánni og þeyttist þaðan niður rétt við marklínuna. En AC Milan slapp ekki á 23. mínútu. Liverpool fékk aukaspyrnu við endalínuna vinstra megin. Trent Alexander-Arnold lyfti boltanum fyrir markið á Ibrahima Konaté. Frakkinn stökk hærra en allir aðrir og skallaði boltann í markið. Frábær sending frá Trent sem hitti beint á Ibrahima.

Rétt á eftir braust Alexis Mac Allister fram að vítateignum. Hann sendi til vinstri á Diogo sem stakk sér inn í teiginn en skaut framhjá. Hann hefði átt að hitta markið og í raun átti hann að skora. Eftir hálftíma varði markmaður Milan skot en hélt ekki boltanum. Mohamed hirti frákastið og náði að skjóta á markið. Það fór alveg eins og síðast. Boltinn fór í þverslána og niður á marklínuna. 

Liverpool réði lögum og lofum. Þegar fjórar mínútur voru til hálfleiks fékk Liverpool horn frá hægri. Kostas Tsimikas sendi fyrir markið. Fyrir framan markið í markteignum stökk Virgil van Dijk hærra en allir aðrir og skallaði boltann í markið. Markið ljósrit af fyrra markinu. Báðir miðverðirnir búnir að skora eftir sendingar frá bakvörðunum. Sanngjörn forysta í hálfleik. 

Yfirburðir Liverpool héldu áfram eftir hlé. Liverpool átti góðar sóknir sem ekki skiluðu mörkum en á 67. mínútu kom þriðja markið. Liverpool náði hraðri sókn. Cody Gakpo æddi inn í vítateiginn og gaf fyrir til hægri á Dominik Szoboszlai sem stýrði boltanum í markið af stuttu færi.

Eftir þetta var sigur Liverpool öruggur. Í viðbótartíma komu Wataru Endo og Federico Chiesa inn sem varamenn. Þetta var fyrsti leikur Federico fyrir Liverpool. Alisson Becker varði bylmingsskot frá Rafael Leao í blálokin í stöngina. Sigurinn öruggur!

Liverpool lenti undir en í stað þess að hafa engin svör eins og í sömu stöðu á móti Nottingham Forest um helgina svaraði Rauði herinn með því að taka öll völd og vinna öruggan sigur. Stórgóð byrjun í Meistaradeildinni!

Mark AC Milan: Christian Pulisic (3. mín.). 

Gul spjöld: Davide Calabria og Youssouf Fofana.  

Mörk Liverpool: Ibrahima Konaté (23. mín.), Virgil van Dijk (41. mín.) og Dominik Szoboszlai (67. mín.). 

Gul spjöld: Alexis Mac Allister og Ibrahima Konaté.

Áhorfendur á San Siro: 59.826.

Maður leiksins: Cody Gakpo. Hollendingurinn var í fyrsta sinn í byrjunarliði Liverpool á leiktíðinni. Hann var stórgóður á vinstra kantinum. 

Fróðleikur

- Þetta var fjórði sigur Liverpool í röð á San Siro.

- Liverpool hefur unnið fjóra af fimm leikjum á þessum sögufræga leikvangi. 

- Ibrahima Konaté, Virgil van Dijk og Dominik Szoboszlai skoruðu allir í fyrsta sinn á leiktíðinni. 

- Federico Chiesa lék sinn fyrsta leik með Liverpool. 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan