| Sf. Gutt

Jafnglími!


Stórleik Liverpool og Arsenal lauk með jafnglími á Þorláksmessu. Lyktir urðu 1:1 á Anfield Road í mjög góðum leik. Liverpool hefði átt að vinna en það tókst því miður ekki. 

Arsenal byrjaði af krafti og uppskar mark strax á 4. mínútu. Martin Ødegaard tók aukaspyrnu frá miðjum vallarhelmingi og sendi inn í vítateiginn. Hann hitti beint á Gabriel Magalhaes sem skallaði í markið.

Tíu mínútum seinna gaf Wataru Endo inn í. Cody Gakpo skallaði aftur fyrir sig á Mohamed Salah en skot hans af stuttu færi fór í hliðarnetið. Reyndar var færið býsna þröngt. Ekki löngu seinna átti Liverpool að fá víti. Mohamed fékk boltann úr aukaspyrnu rétt við vítateiginn. Hann reyndi að leika inn í vítateiginn og um leið á Martin en Norðmaðurinn beygði sig niður og handlék boltann. Augljós vítaspyrna en ekkert dæmt. Hneyksli að ekkert var dæmt. Sjónvarpsdómgæslan hefði átt að grípa inn í en hún brást eins og svo oft áður. 

En Liverpool náði að jafna á 29. mínútu. Trent Alexander-Arnold fékk boltann á eigin vallarhelmingi og sparkaði langt fram á Mohamed sem fékk boltann við endamörkin hægra megin. Hann lék inn í vítateiginn og þar lék hann á varnarmann áður en hann þrumaði boltanum upp í nærhornið! Frábær sending og afgreiðslan hjá Mohamed í hæsta gæðaflokki.

Rétt á eftir varð Liverpool fyrir áfalli.  Bukayo Saka braut illa á Kostas Tsimikas úti við hliðarlínu. Reyndar lenti Kostas á Jürgen Klopp þannig að framkvæmdastjórinn steinlá.  Kostas varð að fara af velli og virtist hann hafa meiðst á öxl. Það væri eftir öðru ef hann myndi líka hafa farið úr axlarlið eins og Andrew Robertson sem hann hefur verið að leysa af. Joe Gomez leysti Kostas af. Á 41. mínútu fékk Gabriel Martinelli sendingu inn í teiginn. Hann lék framhjá Alisson sem náði að slá boltann aðeins frá. Gabrial náði boltanum aftur en hitti ekki markið úr góðri stöðu. Jafnt í hálfleik. 

Á 54. mínútu gaf Luis Díaz út til vinstri á Joe. Hann lék inn í vítateiginn og skaut góðu bogaskoti sem fór rétt framhjá fjærstönginni. Þarna munaði litlu að Joe skoraði fyrsta mark sitt fyrir Liverpool! Varamaðurinn Harvey Elliott var svo ekki fjarri því að koma Liverpool yfir á 71. mínútu. Hann fékk boltann utan vítateigs hægra megin og skaut að marki. Boltinn fór í varnarmann og strauk svo stöngina framhjá. 

Arsenal fór fram og fékk horn. Vörn Liverpool kom boltanum út fyrir teig og þar náði Mohamed honum. Hann rauk af stað með fjórum félögum sínum á móti tveimur leikmönnum Arsenal. Þegar hann var kominn fram að vítateig Arsenal renndi hann boltanum til hægri á Trent sem skaut að marki en til allar óhamingju small boltinn í þverslá. Þarna átti Liverpool auðvitað að skora. Reyndar var hraðaupphlaupið frábært. Liverpool sótti meira til leiksloka en allt kom fyrir ekki. Niðurstaðan varð jafnglími.

Liverpool kom vel til baka eftir óskabyrjun Arsenal. Liðið lék mjög vel en Arsenal gaf ekkert eftir. Liverpool hefði átt að fá víti og svo hefði Bukayo átt að vera rekinn af leikvelli eftir brot þegar hann var fyrir á gulu spjaldi. 

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Konaté, van Dijk, Tsimikas (Gomez 35. mín.), Szoboszlai, Endo, Jones (Gravenberch 68. mín.), Salah, Gakpo (Núnez 68. mín.), og Díaz (Elliott 68. mín.). Ónotaðir varamenn: Kelleher, Clark, McConnell, Quansah og Bradley.

Mark Liverpool: Mohamed Salah (29. mín.).

Gul spjöld: Wataru Endo og Mohamed Salah.

Arsenal: Raya, White, Saliba, Gabriel, Zinchenko, Ødegaard, Rice, Havertz, Saka, G. Jesus (Nketiah 78. mín.) og Martinelli (Trossard 68. mín.). Ónotaðir varamenn: Ramsdale, Smith Rowe, Kiwior, C. Soares,  Jorginho, Nelson og Elneny.

Mark Arsenal: Gabriel Magalhaes (4. mín.).

Gul spjöld: Bukayo Saka, Kai Havertz, Declan Rice, Eddie Nketiah og Ben White.

Áhorfendur á Anfield Road: 57.548.

Maður leiksins: Trent Alexander-Arnold. Bakvörðurinn var sterkur í sinni stöðu og fór líka inn á miðjuna. Sendingin á Mohamed þegar hann skoraði var gersamlega frábær. 

Jürgen Klopp:
,,Það er ekki spurning að þessi leikur gefur okkur sjálfstraust. Það er ekki annað hægt þegar hagstæð úrslit nást og liðið spilar svona vel á móti liði í hæsta gæðaflokki." 

Fróðleikur

- Mohamed Salah skoraði í 16. sinn á leiktíðinni. 

- Liverpool hefur nú gert jafntefli í tveimur leikjum í röð á heimavelli. 

- Liverpool og Arsenal gerðu líka jafntefli í deildinni á Anfield á síðustu leiktíð. 

- Á varamannabekk Liverpool voru fimm heimauppaldir ungliðar. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan