| Sf. Gutt

Öruggur sigur!


Liverpool hélt áfram á sömu braut á Evrópuvegferð sinn. Eftir sigur í fyrsta leik í Austurríki lagði liðið nú belgíska liðið Union Saint-Gilloise að velli 2:0 á Anfield Road.

Liðsuppstilling

Það hafa verið gerðar margar breytingar milli leikja hingað til á keppnistímabilinu. Núna voru þær níu. Það kom svo sem ekki margt á óvart í uppstillingunni. Það stóð ekki til að Alisson Becker stæði í markinu en Caoimhin Kelleher var meiddur. Jarell Quansah var valinn í hjarta varnarinnar.   


Gangur leiksins

Liverpool réði málum frá upphafi til enda. Mohamed Salah komst einn gegn markmanni eftir fimm mínútur en það var varið frá honum. Darwin átti svo að skora eftir rúman stundarfjórðung en skaut framhjá úr dauðafæri. Alisson Becker slapp tvívegis með skrekkinn. Fyrst í lok fyrri hálfleiks og svo í byrjun þess seinni. Miðverðir hans björguðu í bæði skiptin. Annars átti Liverpool leikinn. 

Mörkin

1:0. 44. mínúta. Liverpool lék hratt fram völlinn. Trent Alexander-Arnold skaut utan við vítateiginn. Markmaður belgíska liðsins varði en hélt ekki boltanum. Ryan Gravenberch var á næstu grösum og sendi boltann af öryggi í markið af stuttu færi.

2:0. 90. mínúta. Liverpool náði hraðri sókn. Hún virtist ekki ætla að takast en boltinn hrökk af varnarmanni í veg fyrir Diogo Jota. Hann lék inn í vítateiginn vinstra megin og skoraði með skoti út í fjærhornið framhjá markmanninum sem kom út á móti honum. 

Plús

Sigurinn var fyrir öllu. Liverpool sýndi ekki sinn besta leik en gerði nóg til vinna. Báðir leikirnir í riðlakeppninni hafa unnist hingað til. Liðshópur Liverpool hefur verið notaður mjög skynsamlega hingað til í keppninni.  

Mínus

Ekkert nema hvað það tók óþarflega langan tíma að gera út um leikinn. Ef mark númer tvö hefði komið fyrr hefðu leikmenn Liverpool getað slakað á fyrr. 



Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold (Gomez 63. mín.), Konaté, Quansah, Tsimikas, Elliott, Endo (Mac Allister 45. mín.), Gravenberch (Szoboszlai 79. mín.), Salah (Jones 45. mín.), Núnez (Díaz 45. mín.) og Jota. Ónotaðir varamenn: Jaros, Mrozek, van Dijk, Robertson, Matip, Chambers og Doak.

Mörk Liverpool: Ryan Gravenberch (44. mín.) og Diogo Jota (90. mín.). 

Union Saint-Gilloise: Moris, Castro-Montes, Mac Allister (Sykes 86. mín.), Burgess, Machida, Terho (Lapoussin 67. mín.), Amani (Rasmussen 75. mín.), Vanhoutte (Sadiki 75. mín.), Puertas, Nilsson (Rodríguez 67. mín.) og Amoura. Ónotaðir varamenn: Ayensa, Teklab, Imbrechts, Wenssens, Huygevelde og Leysen

Maður leiksins: Ryan Gravenberch. Hollendingurinn hefur byrjað feril sinn hjá Liverpool vel. Hann var mjög duglegur í leiknum og skoraði fyrsta mark sitt. 

Áhorfendur á Anfield Road: 49.513. 


Fróðleikur


- Þetta er 48. leiktíð Liverpool í Evrópukeppnum. 

- Union Saint-Gilloise er 136. liðið sem Liverpool mætir í Evrópukeppni. 

- Ryan Gravenberch skoraði fyrsta mark sitt fyrir Liverpool.

- Diogo Jota skoraði fjórða mark sitt á leiktíðinni. 

- Markmaðurinn Fabian Mrozek var í fyrsta skipti í aðalliðshóp Liverpool. Hann er pólskur.

- Bræðurnir Alexis og Kevin Mac Allister voru um tíma saman inni á vellinum.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan