| Heimir Eyvindarson

Verðum að vinna Chelsea


Liverpool mætir Chelsea á Brúnni annað kvöld. Eftir slæmt tap gegn City á laugardaginn verðum við að vonast eftir því að menn sýni sparihliðarnar. Annars getum við gleymt Meistaradeild næsta vetur. 

Chelsea lét Graham Potter fara á sunnudaginn, sama dag og Leicester losaði sig við Brendan okkar Rodgers. Þar með hefur 12 stjórum í Úrvalsdeildinni verið sagt upp á tímabilinu, sem er met.

Ráðning Potter á sínum tíma kom vitanlega nokkuð á óvart og hann náði einhvern veginn aldrei að sýna að hann gæti staðið undir því að taka við svo stóru liði. Aðstoðarmaður Potter, Spánverjinn Bruno Saltor (þessi sköllótti neðst í vinstra horninu) sem fylgdi Potter frá Brighton, mun stýra Chelsea á morgun. Hversu týpískt væri það að menn tækju við sér og sýndu einhverja allt aðra takta en þeir hafa gert hingað til í vetur bara af því að stjórinn er farinn?   Bruno Saltor verður 8. stjóri Chelsea sem mætir Liverpool undir stjórn Jürgen Klopp - og sá þriðji á innan við ári. Enginn þeirra sem nú stýra liðum í Úrvalsdeildinni hefur verið lengur í starfi en okkar maður og á blaðamannafundi í dag sagðist hann gera sér fulla grein fyrir því að staðan væri að öllum líkindum önnur ef hann væri á sínu fyrsta tímabili með liðið.

„Ég veit vel að ég er ennþá hérna vegna þess sem við höfum náð að afreka saman, fyrir þetta tímabil. Ég hef engar áhyggjur af mínu starfi, ég er bara hérna til þess að gera gagn fyrir klúbbinn, en ég er ósáttur við þurfa að styðja mig við gömul afrek. Ég vil ná árangri, alltaf. Við höfum alls ekki staðið okkur nægilega vel á þessu tímabili, en við verðum að halda áfram að reyna að finna lausnir á vandanum." Það er laukrétt hjá Herr Klopp. Okkar menn einfaldlega verða að vinna þennan leik (og helst alla leiki sem eftir eru) til þess að eiga einhverja möguleika á Meistaradeildar fótbolta á næstu leiktíð. Liðið er nú í 8. sæti með 42 stig, 8 stigum á eftir Newcastle og Manchester United sem eru í 3. og 4. sæti og heilum 30 stigum á eftir toppliði Arsenal.

Þetta tímabil hefur verið hrein skelfing og líklega erum við flest farin að bíða eftir að það klárist svo hægt sé að fara að láta sig dreyma á ný. 

Það er því miður fátt sem bendir til þess að leikurinn á morgun verði mikil skemmtun. Ég spái því að liðin geri hundleiðinlegt 1-1 jafntefli, þriðja jafntefli liðanna í röð í deildinni og það fimmta ef úrslitaleikirnir í bikarkeppnunum á síðustu leiktíð eru teknir með í reikninginn. Síðasti sigur Liverpool á Brúnni kom í september 2020. Þá skoraði Sadio Mané bæði mörkin í 0-2 sigri. 


 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan