| Sf. Gutt

Landsleikjafréttir

Landsleikjahrotan er yfirstaðin. Nokkrir leikmenn Liverpool létu sannarlega til sín taka. Ein meiðsli hafa verið tilkynnt eftir landsleikina. 


Andrew Robertson lék mjög vel með Skotum í kvöld þegar þeir unnu Spánverja 2:0 í Glasgow. Hann lagði upp fyrra mark Scott McTominay , miðjumanns Manchester United, en hann skoraði bæði mörkin. 

Wales vann Lettland 1:0. Fyrrum leikmenn Liverpool, Danny Ward, Neco Williams og Harry Wilson, voru allir með. 


Mohamed Salah skoraði og lagði upp mark þegar Egyptar unnu Malaví 4:0.

Í gærkvöldi vann Holland Gíbraltar 3:0. Virgil van Dijk og Cody Gakpo spiluðu með. Cody missti af fyrri leik Hollands vegna sýkingar en var búinn að ná sér fyrir þennan leik. Hann lék seinni hálfleikinn. 

Ibrahima Konaté var í vörn Frakka sem unnu 0:1 útisigur á Írlandi.  Caoimhin Kelleher var varamaður hjá Írum. 



Grikkir mættu Litháum. Leiknum lauk með markalausu jafntefli. Kostas Tsimikas fór af velli vegna meiðsla.

Naby Keita skoraði fyrsta mark Gíneu sem vann 3:2 sigur á Eþíópíu. 


Á sunnudaginn unnu Englendingar Úkraínu 2:0 á Wembley. Harry Kane og Bukayo Saka skoruðu mörkin. Jordan Henderson var með og lagði upp markið fyrir Bukayo.

Conor Bradley var í byrjunarliði Norður Írlands sem tapaði 0:1 á heimavelli fyrir Finnlandi. Conor þótti spila mjög vel. Hann er nú þegar búinn að spila tíu landsleiki. 

Diogo Jota kom inn sem varamaður þegar Portúgal vann Luxemborg 6:0.

Kostas er eini leikmaður Liverpool sem er sagður hafa orðið fyrir meiðslum í þessari landsleikjahrotu. Vonandi eru þau ekki alvarleg. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan