| Grétar Magnússon

Nýr samningur hjá Salah

Mohamed Salah hefur skrifað undir nýjan samning við félagið til næstu þriggja ára. Samningamál Egyptans höfðu verið töluvert í umræðunni í sumar en nú þarf ekki að velta þeim málum meira fyrir sér.

Undirritun samningsins fór fram síðastliðinn föstudag, 1. júlí og sagði Salah af þessu tilefni: ,,Mér líður vel og ég er spenntur fyrir því að vinna fleiri titla með félaginu. Þetta er gleðidagur fyrir alla. Það tekur alltaf einhvern tíma, held ég, að endurnýja samning en núna er allt klárt og við getum einbeitt okkur að því sem kemur næst."

,,Ég held að allir sjái að á síðustu fimm eða sex árum hefur liðið ávallt verið að bæta sig. Á síðasta tímabili vorum við nálægt því að vinna fjóra titla en því miður þá náðum við ekki tveimur titlum á lokavikum tímabilsins. Við erum ennþá í góðri stöðu til að berjast um alla titla. Félagið hefur fengið til sín nýja leikmenn. Við þurfum áfram að leggja hart að okkur, hafa skýra sýn, vera jákvæðir og stefna á allt sem hægt er að vinna."

,,Mín skilaboð til stuðningsmanna eru þau að leikmenn liðsins vilja allir gera sitt allra besta á næsta tímabili til að reyna að vinna allt sem hægt er. Eins og venjulega standið þið þétt við bakið á okkur, hvetjið okkur áfram og ég er viss um að við munum saman vinna fleiri titla."

Salah hefur til þessa skorað 156 mörk í 254 leikjum fyrir Liverpool. Hann var keyptur frá AS Roma sumarið 2017 og sló í gegn á sínu fyrsta tímabili með 44 mörk í öllum keppnum, þar af 32 í deildinni sem er markamet í 38 leikjum. Hingað til hefur honum tekist að vinna alla helstu titla sem í boði eru hjá Liverpool. Ensku úrvalsdeildina, Meistaradeildina, FA bikarinn, Deildarbikarinn, Ofurbikar Evrópu og Heimsmeistarakeppni félagsliða.

Auk þess hefur hann tvisvar sinnum verið kosinn leikmaður ársins af samtökum atvinnumanna í knattspyrnu (2018 og 2021) og einu sinni leikmaður ársins af samtökum íþróttafréttamanna á Englandi (2018). Þrisvar sinnum hefur hann svo verið markakóngur deildarinnar.

Salah, sem varð þrítugur fyrr á árinu er sem stendur í níunda sæti yfir mestu markaskorara félagsins og hefur hann nú tækifæri til að komast enn ofar á þeim lista.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan