| Grétar Magnússon

Calvin Ramsay til Liverpool

Nýjasta viðbótin í leikmannahóp félagsins er skoski hægri bakvörðurinn Calvin Ramsay. Hann er 18 ára gamall og kemur frá Aberdeen.


Kaupin voru tilkynnt um síðustu helgi og hefur Ramsay skrifað undir langtímasamning við Liverpool. Níu ára gamall byrjaði hann að æfa með Aberdeen og hefur hann spilað fyrir öll yngri lið félagsins. 2019 skrifaði hann undir atvinnumannasamning og í mars 2021 fékk hann sitt fyrsta tækifæri með aðalliðinu, þegar hann kom inná sem varamaður í leik gegn Dundee United. Á síðasta tímabili var hann meira og minna byrjunarliðsmaður þegar hann lék alls 27 leiki í öllum keppnum í Skotlandi. Í heild spilaði hann 39 leiki fyrir Aberdeen, lagði upp níu mörk og skoraði eitt.

Í vor var Ramsay valinn ungi leikmaður ársins af samtökum íþróttafréttamanna í Skotlandi og var einn af þeim sem kom til greina sem ungi leikmaður ársins af samtökum atvinnumanna í knattspyrnu. Það er því ljóst að hér er efnilegur leikmaður kominn til félagsins.

,,Ég er ótrúlega ánægður og draumur minn er að rætast að vera kominn hingað," sagði Ramsay í sínu fyrsta viðtali við opinbera heimasíðu Liverpool.

,,Draumur minn rættist þegar ég fékk tækifæri með aðalliði Aberdeen á sínum tíma, að vera svo kominn til eins stærsta félags í heimi, ef ekki þess allra stærsta, er ótrúlegt alveg hreint og ég hlakka til að sýna stuðningsmönnunum hvað í mér býr."

,,Vonandi get ég komið inn sterkur á undirbúningstímabilinu, sýnt öllum hjá félaginu, starfsmönnum og leikmönnum hvað ég get og svo sjáum við til hvað gerist eftir það."

Ramsay er þriðji leikmaðurinn sem félagið kaupir í sumar á eftir þeim Fabio Carvalho og Darwin Nunez og verður formlega leikmaður Liverpool þann 1. júlí næstkomandi. Hann verður í treyju númer 22 og hlakkar mikið til að byrja æfingar undir stjórn Jürgen Klopp þegar þær hefjast að nýju í júlímánuði.

,,Það eru margir ungir leikmenn sem hafa fengið tækifæri hér, t.d. Trent Alexander-Arnold og Harvey Elliott og fleiri. Augljóslega er félagið viljugt að gefa ungum leikmönnum tækifæri og það er ein af ástæðum þess að ég valdi að koma hingað. Þetta er ekki bara risastórt félag heldur gefa þeir líka ungum mönnum tækifæri í aðalliðinu. Þannig að ef ég byrja vel á undirbúningstímabilinu þá er engin ástæða til annars en að ætla að ég fái þá kannski tækifæri með aðalliðinu seinna meir."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan