| Grétar Magnússon

Leikmaður ársins

Mohamed Salah var í gær útnefndur leikmaður ársins af samtökum atvinnuknattspyrnumanna á Englandi. Þetta er í annað sinn sem Salah hlýtur þessi verðlaun, síðast féllu þau honum í skaut tímabilið 2017-18.

Þetta er í níunda skiptið sem leikmaður Liverpool hlýtur þessa útnefningu en Salah var einn sex leikmanna ensku úrvalsdeildarinnar sem var tilnefndur að þessu sinni, ásamt liðsfélögum sínum Virgil van Dijk og Sadio Mané. Salah er jafnframt fyrsti leikmaðurinn í sögu félagsins sem hlýtur þessi verðlaun tvisvar sinnum.Salah hafði þetta að segja þegar hann tók við verðlaununum: ,,Takk kærlega fyrir. Það er alltaf gaman að vinna bikara, bæði sem einstaklingur og hluti af liði. Þessi verðlaun eru stór. Ég er mjög ánægður og stoltur."

,,Það er ánægjulegt að vinna þessi verðlaun, sérstaklega vegna þess að aðrir leikmenn sjá um kosninguna. Auðvitað vildi ég fyrst og fremst vinna deildina og Meistaradeildina einnig. En sem einstaklingur sýna þessi verðlaun mér að vegna þess hversu hart ég lagði að mér þá uppsker ég samkvæmt því, þannig séð. Ég set liðið ávallt í fyrsta sæti og auðvitað er það hluti af þessum verðlaunum. Þegar maður hlýtur þessi verðlaun í kosningu blaðamanna og leikmanna þá sýnir það manni að tímabilið var mjög gott."

Salah spilaði 51 leik á nýliðnu tímabili þegar liðið fagnaði sigri í FA bikar og Deildarbikarnum og var í baráttunni um sigur í deildina allt til lokaleiks. Silfur var svo einnig niðurstaðan í Meistaradeildinni. Hann skoraði 31 mark í öllum keppnum, lagði upp önnur 15 og er sem stendur í níunda sæti á lista yfir mestu markaskorara félagsins í sögunni.

Mark hans gegn Manchester City í deildinni á Anfield var valið mark ársins, hann hlaut gullskóinn sem markahæsti maður deildarinnar (ásamt Heung-Min Son) sem og verðlaun fyrir flestar stoðsendingar allra í deildinni. Hjá Liverpool var hann leikmaður tímabilsins, eins og áður sagði var hann svo valinn leikmaður ársins af samtökum íþróttafréttamanna á Englandi sem og samtökum atvinnuknattspyrnumanna.

Salah var spurður að því hvernig hugarfar hans hefur breyst í gegnum árin: ,,Þegar maður eldist finnst maður stöðugleikinn vera meiri, maður höndlar pressu betur og veit nákvæmlega hvað maður vill fá út úr knattspyrnunni. Ég er í rauninni bara að reyna að slaka á og hjálpa liðinu. Þess vegna held ég að ég hafi verið stoðsendingahæsti leikmaðurinn, ég er meira meðvitaður um hvað er að gerast í leiknum, ég reyni því að gera liðsfélaga mína betri sem og sjálfan mig líka."

Fyrrum handhafar þessara verðlauna hjá félaginu eru: Terry McDermott (1980), Kenny Dalglish (1983), Ian Rush (1984), John Barnes (1988), Steven Gerrard (2006), Luis Suarez (2014), Mohamed Salah (2018) og Virgil Van Dijk (2019).


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan