| Sf. Gutt

Spáð í spilin



Brighton and Hove Albion vs Liverpool

Liverpool berst enn við Manchester City um Englandsmeistaratitilinn. Næsta barátta fer fram á suðurströnd Englands og hefst í hádeginu á morgun. 



Liverpool á erfiðan leik framundan gegn Brighton and Hove Albion. Sumir myndu segja að leikurinn verði ekki svo erfiður því Brighton hefur gengið illa í síðustu leikjum. En á móti kemur að Liverpool hefur ekki gengið vel í síðustu leikjum á móti Brighton. Sannleikurinn er sá að Liverpool hefur ekki unnið í síðustu þremur leikjum við Mávana. Liverpool voru reyndar rændir sigri í Brighton á síðustu leiktíð þegar sjónvarpsdómgæslan gaf Brighton víti sem þeir jöfnuðu 1:1 úr í blálokin. Brighton vann svo 0:1 á Anfield. Í byrjun vetrar mættust liðin á Anfield og lauk leiknum með 2:2 jafntefli. Liverpool hefur því átt í greinilegum vandræðum með Brighton í síðustu leikjum. 

Liverpool tapaði fyrsta leik sínum á árinu þegar Inter Milan komu í heimsókn í vikunni. Tapið kom ekki að sök því Liverpool komst áfram í Meistaradeildinni. Í raun átti Liverpool ekki skilið að tapa miðað við gang leiksins en Deilarbikarmeistararnir geta ekki leyft sér að slaka á í eina mínútu á morgun. Sem fyrr segir hafa Mávarnir ekki náð flugi í síðustu leikjum og Liverpool þarf að færa sér það í nyt með því að byrja leikinn af krafti. Góð byrjun Liverpool er lykilatriði til að Mávarnir komist ekki á flug.


Liverpool vann Brighton síðast á meistaraleiktíðinni. Rauði herinn fór þá heim eftir að hafa unnið 1:3. Ég spái því að Liverpool endurtaki leikinn á morgun. Naby Keita, Diogo Jota og Mohamed Salah skora mörkin. Baráttan heldur áfram!

YNWA!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan