| Sf. Gutt

Stutt stopp hjá Rafael Benítez


Nú þegar Liverpool og Everton mættust má rifja upp stutt stopp Rafael Benítez í starfi framkvæmdastjóra hjá Everton á síðustu leiktíð. Rafael stjórnaði Everton rétt rúmt hálft ár.


Rafael var ráðinn til Everton 30. júní 2021. Spánverjinn var ráðinn til þriggja ára. Ráðning hans var mjög umdeild bæði hjá stuðningsmönnum Everton og eins þeim sem fylgja Liverpool að málum. Fylgjendur Everton vildu ekki sjá fyrrum framkvæmdastjóra Liverpool við stjórnina á Goodison Park og stuðningsmenn Liverpool töldu Rafael hafa svikið málstaðinn með því að ætla að rétta gengi Everton við. Hann var því frá upphafi í svo til vonlausu starfi. 

Þeir sem töldu að Rafael Benítez væri í vonlausri aðstöðu höfðu á réttu að standa. Hann 16. janúar 2022 var Rafael vikið úr starfi. Rafael stýrði Everton í 22 leikjum. Sjö unnust, fimm lauk með jafntefli og tíu töpuðust. Ekki telst það nú mikill árangur en hafa ber í huga að framkvæmdastjórar gera ekki kraftaverk á hálfu ári.

Rafael stýrði Everton í einum leik á móti Liverpool. Þeir Rauðu unnu þann leik með yfirburðum 1:4 á Goodison Park. Stuðningsmenn Liverpool stríddu stuðningsmönnum Everton á meðan á þeim leik stóð með því að kyrja nafn Rafael Benítez eins og þeir gerðu þegar hann var framkvæmdastjóri Liverpool. Það gerðu þeir líka, honum til stuðnings, á leik Liverpool og Brentford daginn sem tilkynnt var að Rafael hefði verið vikið úr starfi hjá Everton. Sama var uppi á teningnum núna á Anfield Road á mánudagskvöldið. Alla vega voru stuðningsmenn Everton ekki að syngja nafnið hans!

William Edward Barclay

Rafael Benítez varð annar í sögunni til að stjórna báðum liðunum í Liverpool. Sá fyrsti var William Edward Barclay. Hann var fyrsti framkvæmdastjóri Everton og stýrði liðinu frá 1888 til 1889. Hann tók svo við Liverpool þegar félagið var stofnað 1892 og var framkvæmdastjóri til 1895.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan